Undir leslampa

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2000
Flokkur: 

Úr Undir leslampa:

Skúli Guðjónsson

Blindi ritsnillingurinn

Rússneska skáldið Vladimir Korolenko skrifaði á sínum tíma bók sem þýdd var á íslensku undir heitinu Blindi tónsnillingurinn. Með hliðsjón af því er valinn titill á þessar línur um rithöfundinn Skúla Guðjónsson frá Ljótunnarstöðum í Hrútafirði: hann skrifaði bækur sínar eftir að hann var orðinn blindur, og ég held það sé tæplega ofmælt að hann hafi verið ritsnillingur, þó fáir kunni að þekkja verk hans nú.

Hann var fæddur 30. janúar 1903 á Ljótunnarstöðum, og þar var hann lengst af síðan, stundaði búskap, jafnvel eftir að blindan sló hann, og skrifaði - greinar um allt milli himins og jarðar og minningar af lífsleið sinni, sem eftilvill var fábrotin á ytra borði, en því fjölþættari hið innra.

Hrútafjörður er líklega nokkuð undarlega settur í hugum margra nú til dags; þar er sá alræmdi Staðarskáli, og menn fara þarna í gegn í fljótheitum, sjá ekki margt svona í sjónhending, og einhver hefði kannski sagt heldur tómlátlega að varla byðist hentugri staður til að verða blindur á. En hvað sem allri kaldhæðni líður býr Hrútafjörður yfir sinni sérstæðu fegurð sem lætur ekki mikið yfir sér, er ekki hönnuð fyrir póstkort, en vinnur á. Þetta fann Þórbergur þegar hann var að eltast við Elskuna sína á þessum slóðum forðum daga, þó hann væri að vísu fyrst og fremst á höttunum eftir ,,náttúrufegurð af öðrum toga. En af því hér er til umræðu sýn og blinda, er óhætt að segja að glöggt sé gests augað; einhvern tíma var mér sagt frá dönskum hjónum sem heimsótti hingað íslenskan vin sinn. Hannf ór með þau um allt land, oftast nær í blíðskaparveðri og landið í sínu fínasta sumarpússi. En dönsku hjónin létu sér fátt um finnast - þar til þau komu í Hrútafjörð. Þá lyftist á þeim brúnin, og þegar þau svo sendu þessum vini sínum jólakort stóð ,,den dejlige Hrutefjord upp úr Íslandsdvölinni. Skúli var samgróinn sínum átthögum, og kannski hugsaði hann ekki svo mikið um að þeir væru dásamlegir, en þarna var hann upprunninn, þarna var hans staður. Hann var lifandi dæmi um tryggð sem nú þykir úrelt.

(21-2)