Undir regnboganum

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1980
Flokkur: 

Úr Undir regnboganum:

Amma Ömmur eru undarlegt fyrirbæri. Það virðist vera til tvær gerðir af þeim. Annars vegar eru ömmurnar í bókunum, þær eru litlar, gamlar og góðlegar með mjúka vanga og hlýjar hendur, þær klappa börnunum á kollinn og segja þeim sögur. Oftast eiga þær brjóstsykurmola eða súkkulaðiögn til að stinga upp í þá sem hafa dottið og hruflað sig á hnjánum eða beðið stundarósigur í lífsbaráttunni.
Hins vegar eru alvöruömmur, eins og amma Döggu.
Hún er stór, beinaber, með rauðar, kaldar hendur sem eru ekki notaðar til að klappa og kjassa heldur aðallega til að þvo og fægja, strjúka og pússa í eilífri baráttu við að halda rykinu fjarri í heimi sem er þó fullur af ryki. Amma segir ekki heldur sögur, en hún kveður upp dóma. Hún veit nefnilega alltaf best hvernig hlutirnir eiga að vera af því að hún hefur lifað svo lengi. Og auðvitað er hún oft þreytt á því að hinir, sem hafa lifað skemur, vita lítið og gera miklar vitleysur. Henni finnst til dæmis dálítið ergilegt hvað mamma tekur miklum silkihönskum á Halla litla í sambandi við pissiríið. Að strákurinn, tveggja og hálfsárs, skuli enn eiga það til að missa í buxurnar. Sjálf hafði hún vanið hann son sinn, þ.e.a.s. pabba, af því þegar hann var fjögra mánaða. Hún bara þrjóskaðist við og sat með hann í fanginu yfir koppnum þangað til hann gafst upp og pissaði. Þar með var það búið og gert, en það þýddi auðvitað ekki að vera með neina sérhlífni.

(s. 8-9)