Upp á líf og dauða

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2011
Flokkur: 

Um bókina:

Eftir hópvinnu heima hjá Hrönn liggur blað með dapurlegu ljóði á borði. Það leynir sér ekki. Sá eða sú sem skrifaði ljóði á erfitt og vill jafnvel ekki lifa lengur. Þetta er neyðarkall! En frá hverjum?

Hrönn ákveður að finna höfundinn og koma honum til hjálpar en það er hægara sagt en gert. Fimm krakkar voru í hópnum og engin leið til að vita hver skildi blaðið eftir, óvart eða viljandi. Tvíburabróðir Hrannar og besta vinkonan taka þátt í leitinni en þau fara fljótlega að hugsa um eitthvað allt annað en sorgmæddan skólafélaga.

Úr bókinni:

Í fyrstu kennslustundinni næsta morgun mændi Hrönn nær stanslaust á Mónu. Þær höfðu aðeins verið bekkjarsystur í nokkrar vikur og höfðu ekki verið saman í grunnskóla. Hrönn mundi að minnsta kosti ekki eftir að hafa séð Mónu fyrr en í haust. En kannski var ekkert að marka það. Móna var ekki manneskja sem mikið bar á. Ef enskukennarinn hefði ekki sett þær í sama hóp hefði Hrönn varla vitað hvað þessi stelpa hét, hvað þá meira.

Og þó. Hún hafði fljótlega tekið eftir henni, eimitt út af nafninu. það hafði komið Hrönn á óvart að íslensk stelpa skyldi heiat Móna. Hún mundi ekki eftir að hafa heyrt nafnið áður, nema í tengslum við málverkið af Mónu Lísu auðvitað. Hana minnti líka að til væri sælgætisgerð með þessu nafni. En hún hafði aldrei hitt manneskju sem hafði verið skírð þetta. Var Móna kannski útlensk?

Stelpan leit að vísu ekki út fyrir að hafa erlent blóð í æðum, í það minnsta ekki suðrænt eða austurlenskt. Hún var með gráhvíta húð og hár sem hreinlega æpti á strípur og klippingu. Það var hvorki almennilega ljóst né beinlínis brúnt, heldur eitthvað þar á milli, og síddin var líka óafgerandi. Ekki beint stutt en heldur ekki sítt.

Líkami Mónu var einnig svona hvorki né. Hún var enginn offitusjúklingur en þó var ómögulegt að segja að hún væri grönn. Og ekki bætti úr skák að hún klæddist oft víðum, síðum peysum og þverröndóttum sokkabuxum. Lýsingarorð á borð við þétt eða jafnvel þybbin lýstu henni trúlega best.

Þegar Hrönn hafði fyrst bent Líneyju á Mónu hafði vinkona hennar reyndar hvíslað: „Ertu að meina þessa feitu?“ En í samanburði við Líneyju voru flestar stelpur feitar. Hún hafði erft vöxtinn frá móður sinni og var svo lágvaxin og fíngerð að hún gat keypt sér gallabuxur í barnastærðum.

Það eina sem var áberandi við Mónu var tilhneiging hennar til að roðna. Það þurfti ótrúlega lítið til að hún yrði kafrjóð í framan, bara að einhver spyrði hvað klukkan væri eða bæði hana að lána sér strokleður. Mest áberandi var roðinn þó þegar einhver af kennurunum ávarpaði hana.

Því lengur sem Hrönn starði á Mónu, því vissari varð hún um að þær Líney þyrftu ekki að leita lengra, þær hefðu strax lent á manneskjunni sem þær leituðu að. Annaðhvorrt höfðu þær verið svona rosalega heppnar eða þá að einhver æðri máttarvöld höfðu verið að verki og séð til þess að nafn Mónu kom fyrst upp úr snakkpokanum. Svona feimin stelpa sem féll alls staðar inn í umhverfið hefði eimitt getað skrifað:

fólk gengur bara fram hjá þótt ég öskri
heyrir ekki í mér
tekur ekki eftir neinu

(49-50)