Úr plógfari Gefjunar: tólf Íslendingaþættir

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1996
Flokkur: 

Úr Úr Plógfari Gefjunar:

Margur er ljórinn á gömlum manntölum sem hægt er að leggjast á og gægjast inn um. Sem oftast er slíkt þó ekki nema héluð sýn, nöfnin einber og fólkið óljóst, en nær verður ekki komist handan um alda höf. Góðum rýni á þeim ljóra getur samt orðið það til happs, að það sé ekki aðeins týra á baðstofustoð eða stakt ljós á stjaka sem sýni honum skuggförula mynd, heldur birti skyndilega innan við glugginn af öðru og fjarkomnara ljósi. Sú skyndilega birta er það söguljós sem allt aðrar heimildir, skjöl og dómar eða ættartölur, hafa snúið í kveik og tendrað upp af ljósmeti sínu. Þegar svo ber til má skoða fólk, fjölskyldur eða einstaklinga, með kennimerkjum sínum sem það bar í lifanda lífi. Sú er þó íþróttin mest í slíkri grennslan, að sjá ekki aðeins hið séða, heldur stauta sig fram úr því fólgsnarletri sem í andlit og athöfn er rist.

Fyrir framan mig hef ég manntal, sem lokið er í Kaupmannahöfn daginn 13. apríl árið 1729. Í því fólkstali væntir mig að hitta fyrir mann sem hefur löngum verið mér hugleikinn, þó ekki sé það sökum manndyggða, nema miklu síður sé, því aðrir eins þverbrestir skapsmuna eru naumast höggnir dýpra í ásýnd nokkurs manns í sögu okkar. Auðugasti maður á Íslandi um langa hríð er hann nú öllum eignum sviptur, mestur stórbokki og valdsmaður dæmdur frá embætti og æru á Öxarárþingi síðasta, þótt sumir mótstöðumenn hans teldu æru hans varla bleksins virði í þingbókina. Í þessari innikreppu greip hann til þess ráðs sem honum hafði lengi dugað: skjótur til hesta, og síðan náttfari og dagfari til móður sinnar á Rauðamel, sem undirritaði jafnótt afsal fyrir nokkrum jörðum sínum, og með þau skjöl svo sem hestar teygðu yfir um Kerlingaskarð, á vit Jens Lassens Stykkishólmskaupmanns, sem vissi að auður Íslendinga lægi í jörðum, og um leið og skipið seig út í útfallsstrauminn, var fyrrum lögmaður Oddur Sigurðsson kominn báðum fótum í lyftingu.

Sögur segja um Ásdísi á Bjargi, móður Grettis, að fáar konur hafi horft opnari fingrum á hrekkvísi sonar síns. Þar var þó ekki um að ræða nema baldstýringu unglings. Sigríður Hákonardóttir, ættuð af auðmönnum aftur í aldir, horfði hinsvegar ævilangt á dólgshátt uppkomins sonar síns og ól undir fremur en hitt; taldi það kennimark mikilmennsku. Varla lagði hún heldur orð á milli þegar Jón Skálholtsbiskup Vídalín kom með sveinum sínum að kirkjuvita staðinn á Narfeyri þann 5. september 1713, þar sem þau mæðgin höfðu upppbyggt mikil timburhús, og Oddur sonur hennar lagði til biskups með hnefum og sagðist gefa honum einn upp á flaben, óvirti hann með klámyrðum og vændi guðsmanninn um að hafa bölvað biblíunni í heilt ár, sagði sér vera þa sælustu skemmtan að blóðga með hnúum slikan kjaft! Þjarmaði hann síðan að biskunum með orðum bæði og afli sínu. Allt var það af mikillæti stórs höfðingja útilátið. Daginn eftir, og þá líklega á Staðarstað, skrifaði Jón Vídalín konungi, sagðist ekki vera óhultur um líf og limu fyrir lögmanninum Oddi, og bað konung að taka sig, ,,hans fátækan þegn og Guðs þjón undir sína vernd.

(7-8)