Út í víða veröld

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1997
Flokkur: 

Myndir: Brian Pilkington.

Úr Út í víða veröld:

VETUR KONUNGUR

Vetur konungur sat í hásæti sínu í hátíðarsalnum inni í jöklinum miðjum, greiddi hrím úr skegginu og horfði hvössum augum á ferðalangana. Tærnar stóðu út undan síðum hvítum kyrtlinum og þær voru miklu blárri og kuldalegri en tærnar á hrímdvergunum.
Hvelfingin yfir honum sindraði og tindraði og norðurljósin léku um hana í sínum fegurstu litbrigðum. Tveir hrímdvergar sem höfðu verið að vökva og snyrta frostrósirnar meðfram veggjunum lögðu niður störf og glápu á ferðalangana. Einn sem var einmitt búinn að tína þær stærstu og fallegustu í klakavasa handa kónginum góndi líka orðlaus á þá.
Birta fann kuldann leggja um sig þegar Vetur konungur horfði á hana. Hún tók í höndina á Dúa litla og þrýsti hana fast.
„Þau eru hættuleg, þeim er allt of heitt. Það verður að kæla þau,“ sagði konungurinn.
„Yðar hátign, við lentum hingað niður fyrir slysni. Það eina sem við viljum er að komast sem fyrst upp úr jöklinum svo að við getum haldið för okkar áfram,“ sagði Elliði.
„Hér er það ég sem ræð,“ svaraði Vetur konungur, horfði hvasst á Elliða og blés hagléli úr nös.
„Áttu heima hérna?“ spurði Dúi.
„Auðvitað á ég heima hérna. Sérðu ekki að þetta er konungshöll?“ „Er þér ekki voðalega kalt á fótunum?“ spurði Dúi.
„Jú, ég er með köldustu fætur í heimi,“ svaraði Vetur konungur stoltur.
„Ég skal hita þér,“ sagði Dúi fullur samúðar, hljóp til hans og tók um aðra stórutána.
Konungurinn rak upp skelfilegt öskur og hnerraði heilli stórhríð út í loftið. Jarpur, Elliði og börnin fuku yfir í hinn endann á salnum og sátu allt í einu á kafi í snjóskafli.
„Þau eru hættuleg, ég sá það strax. Og hættulegastur er þessi litli bjálfi sem ætlaði að eyðileggja á mér tærnar,“ hvæsti konungurinn og snjóélin gusuðust út úr honum.
„Fyrirgefið, yðar konunglega tign. Hann meinti þetta vel, hann er bara óviti,“ sagði Birta og tennurnar í henni glömruðu af kulda og hræðslu.

(s. 75-77)