Út við svala sjávarströnd

Útgefandi: 
Ár: 
2010
Flokkur: 

Úr Út við svala sjávarströnd

Næsta hús við Sýslumannshúsið var prestshúsið. Þar bjó prestur Strandamanna, Albert að nafni. Hann var töluvert fullorðinn þegar þetta gerðist. Eftir samtalið við Jökul fannst Kristjáni sýslumanni rétt að hitta prestinn. Hann var líklega rétti maðurinn til þess að slást í för með þeim. Það varð því úr að þeir bönkuðu upp á hjá presti.
Séra Albert tók þeim vel. Hann var vissulega felmtri sleginn yfir öllum þeim fréttum, sem honum voru færðar, en hann bjóst strax til brottferðar. Séra Albert var lítill maður og digur, en undarlega lipur miðað við útlitið. Hann var fremur geðslegur, þunnhærður með glaðlegt yfirbragð. Hann bjó í prestshúsinu ásamt Auði konu sinni. Börnin voru uppkomin og farin burt til náms.
Presturinn var fljótur að tygja sig, og bráðlega voru þeir þremenningarnir lagðir af stað upp hlíðina í átt að Hóli. Þeir gengu hljóðir og hugsuðu sitt. Það sem framundan var gat ekki talist til neinna skemmtiverka, en því miður var ekki hægt að breyta hinu liðna.
Í húsunum á Hóli var allt eins og Halldór hafði gengið frá því. Þeir báru líkið út fyrir fjárhúsvegginn, bættu tuggu á ærnar og höfðu svo opið, svo að þær gætu bjargað sér.
Mennirnir ákváðu að bera líkið í bæinn, og athuga hvort ekki væri hægt að finna þar eitthvrt böruefni, svo að þeir ættu betra með að bera það niður á Klettstanga. Slíkt fannfergi var yfir að ekki var möguleiki að koma farartæki upp að Hóli.
Bæjarhúsin á Hóli voru úr torfi og grjóti. Það var eini staðurinn þar sem ekki var enn búið að byggja steinhús. Bærinn var í sjálfu sér ekki svo slæmur, en kröfurnar voru óðum að breytast og nú vildi enginn lengur búa í torfbæ. Mennirnir paufuðust inn þröng göngin og inn í baðstofuna.
Þeim brá heldur en ekki í brún þegar þangað var komið.

(bls. 38-39)