Úti að aka: á reykspúandi Kadilakk yfir Ameríku

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2006
Flokkur: 

Meðhöfundur er Einar Kárason. Í bókinni eru ljósmyndir Jóhanns Páls Valdimarssonar.

Ferðasaga Ólafs og Einars eftir ferð þeirra á Kadilakk um Ameríku sumarið 2006.

Úr Úti að aka:

Við stoppuðum við Amish-verslun. Það var eins og að skreppa hundrað og fimmtíu ár aftur í tímann. Stæðileg kona á síðum blágráum kjól með hvíta skuplu afgreiddi mig. ég keypti mér stóra köku með hnetum og át hana meðan ég skoðaði búðina. Hér var sælgæti undir gleri eins og í Lúllabúð í gamla daga Fornfálega r hillur hýstu nýlenduvörur og reiðtygi héngu á snögum í afherbergi. Þar inni sátu nokkrir skeggjaðir karlar og voru að kjafta saman.

Við héldum áfram ferðinni um sveitina. Gamlir bílar stóðu í túnum eins og stórgripir. Við vorum því sennilega komnir út úr Amish-héraðinu. Síðdegissólin var farin að skína.

Ég varð því fegnastur þegar við komum aftur í nútímann og stoppuðum við bensínstöð. Tankurinn var orðinn tómur.

,,Sá kann að brúka það, sagði Einar Kárason.

Við stóðum allir vandræðalegir við bílinn. Hver átti að borga? Svona bílar taka með hægð hundrað lítra á tankinn. Allra augu beindust að Jóhanni.

,,Hvernig stendur á því að allir halda að forleggjarar viti ekki aura sinna tal? spurði vesalings Jóhann. ,,Ég hef ekki meira skotsilfur til þessarar farar en hver annar. Hann snaraðist inn til að greiða en sagði um öxl á leiðinni: ,,Næst tekur þú upp veskið, Ólafur!

Ég ákvað að bjóða öllum í mat, það fauk svo í mig yfir þessari athugasemd.

Bob Evans heitir veitingahúsakeðja í Ameríku. Þar var okkur heilsað með hinu reglubundna ,,How are you, guys? og matseðlum dreift á borðið.

,,Where are you guys from? var næsta spurningin.

Þegar við sögðum hvers lenskir við værum og í hvaða erindagjörðum fór það eins og áður; þá varð þjónustustúlkan hreint standandi bit. Hún hljóp að segja stöllum sínum frá þessu og þær komu að kíkja á þennan hóp af brjálæðingum sem ætluðu fimm þúsund kílómetra á fimmtíu ára gömlum Kadilakk. Umræðan gerði mig órólegan og ég fór fram í afgreiðsluna og fékk að hringja á verkstæðið. George varð fyrri svörum. Startarinn var kominn en þegar bíllinn loks rauk í gang með þrumuskotum, blárri eimyrju og öðrum djöfulskap kom í ljós að hann þurfti nýtt pústkerfi.

,,Ég ætla að skutlast með hann til vinar míns á eftir, sagði George. ,,Hann verður enga stund að smíða undir hann nýtt púst.

,,Að smíða. ,,Enga stund. Mér fannst það hljóma eins og tíu daga töf.

(76-8)