Úti að aka: á reykspúandi Kadilakk yfir Ameríku

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2006
Flokkur: 

Meðhöfundur er Ólafur Gunnarsson. Í bókinni eru ljósmyndir Jóhanns Páls Valdimarssonar.

Ferðasaga Ólafs og Einars eftir ferð þeirra á Kadilakk um Ameríku sumarið 2006.

Úr Úti að aka:

Eftir hálftíma akstur fór ég að finna gangtruflanir. Ég þreif strax labbrabbtækið sem var á milli mín og Steina sem sat í farþegarsætinu frammí og kallaði til félaga minna: ,,Það er einhver bilun, við verðum að stoppa! Fór svo út á vegöxlina og hikstandi bíllinn drap á sér. Bensínmælirinn var neðarlega en eki alveg í núlli. Þeir Sveinn og Jóhann stoppuðu líka nokkru framar og biðu átekta. Steini opnaði húddið, skoðaði blöndunginn og komst fljótt að raun um að kagginn var bensínlaus. Ég kallaði um það boð til Sveins og Johanns og þeir héldu strax af stað til að finna næstu bensínstöð og ná í leka á brúsa.

Það var ekkert fyrir okkur hina að gera annað en að bíða. Þarna var ekki neitt að skoða svo sem; bara gras og sléttur svo langt sem augað eygði. Steini er mikill sóldýrkandi og hann var fljótur að ná sér í mottur úr bílnum, leggja þær í grasbrekku sem hallaði undan vegöxlinni og koma sér fyrir þar. Ég fór fljótlega að dæmi hans. Óli sat inni í bílnum, í aftursæti glæsibifreiðarinnar eins og hver annar fyrirmaður, og var að punkta eitthvað hjá sér í vasabók. Haukur stóð við bílinn og talaði ýmist inn í hann til Óla eða niður í brekkuna til okkar Steina.

Svo renndi bíll upp að okkur, highway patrol, sjálf löggan. Vildi vita hvað hér væri í gangi, hvers vena þessi forni glæsibíll stæði hér á vegöxl. Ég sá að Haukur var ekki í vandræðum með að útskýra það; bensínleysi, það væri verið að redda okkukr, allt í fínu. Ég heyrði að löggan spurði um skráningarskírteini fyrir bílinn; þeir gera það alltaf, ekki bara í bíómyndunum heldur líka í raunveruleikanum. Haukur er lipur að verða við beiðnum manna, vill vera snöggur að. Hann hraðaði sér að bílnum, opnaði framdyrnar hægra megin, þar í hanskahólfinu var skráningarskírteinið geymt. Ég stóð upp og labbaði að bílnum, vildi vera viss um að það yrði ekkert vesen. En löggan virtist ekki ánægð með pappírinn sem Haukur framvísaði. Haukur sagði eitthvað og kom aftur að dyrunum við hanskahólfið. ,,Þetta er ekki skráningarskírteinið! útskýrði hann fyrir mér. Ég opnaði hólfið og þar lá teinið. Haukur tók við því af mér, rétti mér hinn pappírinn og hraðaði sér framþungur til lögreglumannsins. Ég leit á blaðið sem Haukur hafði framvísað fyrst; það var áminningin frá löggunni sem stoppaði okkur kvöldið áður þegar Steini ók of hratt. Svo kom Haukur aftur, brosandi út að  eyrum; ég sá að lögreglumaðurinn var að setjast inn í sinn bíl.

,,Hvað sagði löggan? spurði ég frekar þurrlega, fúll yfir að Haukur skyldi hafa klaufast svona með þetta.

,,Hann spurði hvaðan ég væri! Sagði Haukur, eitt sólskinsbros. Og bætti svo við, til upplýsingar fyrir mig: ,,Og ég sagði honum að ég væri frá Íslandi!

(91-2)