Vængjasláttur í þakrennum

Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1983
Flokkur: 

Uglan, 1996

Úr Vængjasláttur í þakrennum:

Já alveg eins og Elvis Aron Presley er konungur rokksins, Edward King konungur vindlanna, Tarsan konungur apanna er Diddi konungur dúfnanna og alveg einsog aðrir kóngar sem lifa eftir hnignun konungdæma sinna umgengst Diddi engan nema sjálfan sig.
 Hann þekkir sjálfan sig betur en aðra og þarf ekki á neinum félagsskap að halda, því hann er kóngur og hirðmenn hans, dúfurnar fljúga líkar litlum spegilmyndum í sjáöldrum hans og hlýða hverri skipun.

Því neitar enginn:
 Diddi á spökustu dúfurnar í hverfinu.
 Diddi á fallegustu dúfurnar í hverfinu.
 Hann á drifhvíta ísara, hann á sæg af meffikönum og hojara í hrönnum.
 Enginn nema Diddi getur gengið með dúfurnar sínar á öxlunum.
 Enginn nema Diddi getur veitt dúfunum sínum ferðafrelsi.
 Enginn nema Diddi getur haft kofana sína opna.
 Hann á fleiri dúfur en hægt er að óska sér, fleiri afbrigði en hægt er að finna í nokkru uppsláttarriti um dúfur.
 Hann parar ólík afbrigði saman svo út koma önnur sem aldrei hafa sést.
 Sumar dúfurnar hans eru litskrúðugri en páfagaukar. Hann á sægræna dúfu. Hann á dúfu sem getur staðið á haus og dúfu sem getur gert armbeygjur með vængjunum. Í kofaþyrpingunni leika dúfurnar listir sínar á við færustu fjölleikatrúða. Þær hoppa gegnum gjarðir, teikna myndir í himininn og sumir segjast hafa heyrt þær syngja.

(s. 82-3)