Vatnsfólkið

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1997
Flokkur: 

Úr Vatnsfólkinu:

Úr sögunni „Brot”

Daginn á undan hafði verið væta framan af og flestir héldu sig inni við. Svo stytti upp og menn gengu út á dyrapallana, síðan þurrum fótum út á grasið - og allt var kyrrt.
Ég var tæplega vaknaður morguninn eftir þegar gífurleg sprenging þeytti skólahúsinu okkar af grunni. Vorprófum var nýlega lokið, og einhverjir höfðu fallið, einsog gengur. Ég stökk fram úr rúminu og út að glugganum, sem reyndar hafði brotnað við sprenginguna. Reykjarmökkur lá yfir þorpinu, svo fyrst í stað sá ég ekki neitt, það var einsog dimm þoka hefði steypt sér niður úr fjallaskörðum og gleypt húsin. Skólahúsið var, eða hafði verið, drjúgan spöl frá mínu húsi, en samt voru steinsteypubrot í garðinum hjá mér. Þau höfðu dreifst næstum ótrúlega reglulega yfir grasflötina.
Ég hafði smeygt mér í inniskóna þegar ég brölti fram úr, og undir fæti brast í glerbrotum. Neðan úr þorpi bárust óp.
„Sennilega skólastjórinn,” hugsaði ég. Ekki það, ég var nokkuð viss um að hann hafði ekki verið í skólanum þegar sprengingin varð, enda hefði hann þá varla æpt svona. Hann æpti örugglega úr brotnum gluggunum heima hjá sér, því varla var heill gluggi í þorpinu öllu.
Ég held ég hafi ekki staðið lengi við gluggann, enda var fátt að sjá annað en þessi brot úr menntasetri staðarins í grasinu.
Þar sem húsið hafði verið stigu enn upp reykjarlopar.
Ég klæddi mig snarlega í fötin og strigaskóna og gekk út. Logn var á, svo mökkurinn dreifðist hægt, og ég andaði að mér steinryki á göngunni eftir sjávargötunni. Á stríðsárunum hafði sprungið tundurdufl hér neðan við klappirnar, og þá höfðu brotnað margar rúður í þorpinu, en þetta var eitthvað miklu svakalegra en það. Þegar tundurduflið sprakk höfðu þorpsbúar safnast saman í skólahúsinu, leitað þar skjóls, en það hafði ekki gefist vel í þetta sinn. Enda hafði enginn búist við ósköpum núna, þegar friður ríkti um höf og lönd.
Jónína „systir” kom út úr Stigahúsi og kallaði til mín: „Hvað gerðist eiginlega, var einhver að fikta með eld við bensíntankana?”
„Einhver hefur ekki verið ánægður með einkunnagjöfina í skólanum,” svaraði ég.
„Jesús minn almáttugur,” sagði hún. „Á hvaða leið er þessi veröld?”
„Það er ekki gott að segja,” ansaði ég. Steinþokunni var að létta, og alls staðar voru múrbrot, í grasi og á götunni, gluggar göptu mölbrotnir, og þar sem gamla, fallega litla skólahúsið hafði staðið, var nú bara gígur. Í garði kaupfélagsstjórans við hliðina var setan af kennarastólnum. Hús kaupfélagsstjórans var heldur illa út leikið eftir sprenginguna, steinklumpar höfðu dunið á því einsog fallbyssukúlur, og glerið sópast inn úr gluggum.
Fjölskyldan stóð úti á tröppum, skjálfandi í hlýju veðrinu. Hér er engin áfallahjálp, svo þau urðu að komast í gegnum þetta af sjálfsdáðum. Ég lyfti hendi um leið og ég gekk fram hjá, en fékk mig einhvernveginn ekki til að tala við þau, enda var ég í skuld í kaupfélaginu; skuld sem ég átti að vera búinn að borga fyrir löngu.

(s. 89-91)