Vertu sæll, Kólumbus

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1994

Um þýðinguna

Smásagnasafnið Goodbye, Columbus eftir Philip Roth í þýðingu Rúnars Helga.

Úr Vertu sæll Kólumbus

4

Næstu tíu dagana virtist líf mitt aðeins snúast um tvær manneskjur: Brendu og litla negrastrákinn sem hélt upp á Gauguin. Á hverjum morgni beið hann þess að bókasafnið yrði opnað - stundum sat hann á baki ljónsins, stundum undir kvið þess, stundum stóð hann bara og kastaði steinvölum í makkann á því. Svo kom hann inn, trommaði á gólfið uns Otto starði hann upp á tærnar, en lagði loks leið sína upp löngu marmarastigana áleiðis til Tahiti. Hann stóð ekki alltaf við fram að hádegi, en einn afar heitan dag var hann mættur þegar ég kom að morgni og fór á eftir mér út um kvöldið. Það var morguninn eftir sem hann lét ekki sjá sig og líkt og í stað hans birtist karlfauskur, hvítur fyrir hærum, angandi af Life Savers-töflum, æðaslit í nefi og kinnum. Geturðu sagt mér hvar ég finn listadeildina?

Stæða þrjú, sagði ég.

Að nokkrum mínútum liðnum kom hann til baka með stóra brúna bók í hendinni. Hann lagði hana á borðið hjá mér, dró skírteinið sitt upp úr stærðarseðlaveski, tómt af peningum, og beið þess að ég stimplaði bókina út.

Ætlarðu að taka þessa bók út? sagði ég. 

Hann brosti.

Ég tók skírteinið og stakk málmröndinni inn í vélina, en stimplaði ekki. Dokaðu við, sagði ég. Ég náði í minnisblokk og fletti nokkrum síðum, sem voru þaktar herskipa- og krossaleikjum mínum. Þessi bók er því miður frátekin.

Er hún hvað?

Frátekin. Það hefur einhver hringt og beðið okkur að geyma hana fyrir sig. Má ég taka niður nafn og heimilisfang og senda þér tilkynningu þegar hún losnar...

Og þannig tókst mér, þó ekki án þess að roðna að minnsta kosti einu sinni, að koma bókinni aftur í stæðuna. Þegar negrastrákurinn mætti seinna um daginn var hún á nákvæmlega sama stað og hann hafði skilið við hana daginn áður.

Hvað varðar Brendu, þá hittumst við á hverju kvöldi og þegar ekki var leikur í sjónvarpinu sem hélt vöku fyrir herra Patimkin, eða spilakvöld hjá Hadassah sem dró frúna út svo hún kom heim á ólíklegustu tímum, nutumst við fyir framan hljóðan skjáinn.

(s. 45-46)