Við

Útgefandi: 
Staður: 
Akureyri
Ár: 
2001
Flokkur: 

Af bókarkápu:

Við: Grátbrosleg, meinleg, fyndin, sorgleg. Og það má taka dýpra í árinni; ef til vill er sagan um drenginn Starkað ein besta og áhrifaríkasta smásagan sem skrifuð hefur verið á íslensku; um unga drenginn sem á ekki lengur eina tilveru, á ekki lengur foreldra en þess í stað mömmu hér og pabba þar.


Úr Við:

Kristjana

Dálítið hrím var á tröppunum og Kristjana hélt þéttingsfast utan um handlegg mannsins síns, alla leið inn í kirkjuna. Þetta var kaldur en fallegur dagur. Sólin í þann mund að brjótast upp fyrir fjallstoppana. Veturinn heldur á undanhaldi. Sunnudagur.

Guðjón brosti til konu sinnar í kveðjuskyni og hélt inn um hliðardyr til félaganna í kirkjukórnum. Kristjana nikkaði vinalega og gekk inn kirkjugólfið. Hún ákvað að setjast framarlega, hægra megin við glugga. Enn voru um þrír stundarfjórðungar þangað til guðsþjónustan hæfist.

Veikur ómur fór að berast af raddæfingum Guðjóns og kórsins. Kristjana sat og hlustaði en ekki leið á löngu uns svipur hennar þyngdist. Þótt kórinn væri við æfingar í kjallaranum og söngurinn væri veikur þá greindi hún glögglega að tenórarnir voru falskir. Ekki var um að villast.

Mikið hafði kórinn dalað að undanförnu. Bæði voru sumar raddirnar orðnar fullgamlar og svo höfðu nýlega bæst við ungir menn sem virtust eiga í mestu vandræðum með að halda lagi. Einhver hafði sagt henni að nýju mennirnir væru kunningjar kórstjórans en sá hvað verið ráðinn til starfa fyrir hálfu ári. Þetta var ungur maður og ætlaði sér eflaust ekki að staldra lengi við. Það vantaði reyndan mann með bein í nefinu.

Kannski ætti Guðjón að segja þetta gott og flytja sig annað áður en það yrði of seint. Hann hafði í eina tíð verið einn besti kirkjusöngvari landsins. Og enn söng hann guðdómlega að mati Kristjönu.

Henni var pínulítið kalt svo hún sveipaði kápunni þéttar að sér. Gott væri að eignast hlýjan pels fyrir næsta vetur. Sem minnti hana á að elsta dóttir hennar hafði boðið þeim í heimsókn síðdegis. Kristjana hafði ætlað að vera búin að kaupa einhverja fallega flík á dótturdóttur sína og nöfnu. Elsku sætu ömmustelpuna sína.

Raddirnar úr kjallaranum þögnuðu, æfingurinn var lokið. Fólk fór að slæðast inn. Hákon og Sigríður létu sig ekki vanta frekar en fyrri daginn. Jónína með alla krakkana sína og Diðrik og Solla með þroskahefta barnið. Kristjana sá að það yrði heldur fátt þennan daginn og kannski var ekki að undra eins og allt var orðið. Til dæmis hafði spurst út að Þorgerður tæki kappaksturinn í sjónvarinu fram yfir kirkjuathafnir. Hver hefði trúað því fyrir nokkrum árum þegar Þorgerður þurfti svo sannarlega á friði guðshússins að halda. Nú, þarna var Ástríður. Hún veifaði pent.

Þær Ástríður náðu ekki nema rétt að skiptast á kveðjum, því nú steig organistinn pípurnar sínar með bæði höndum og fótum og introitus Bachs lysti upp krikjuna í lofgjörð til drottins. Prestinum hafði enn eina ferðina tekist að laumast upp að altarinu án þess að Kristjana tæki eftir. Bak við hana kórinn á svölunum; Guðjón og allir hinir í rauðu kyrtlunum sem áttu að tákna blóð Krists. Hana langaði atil að horfa upp á svalirnar en eins og vanalega stillti hún sig um það. Það var ekki við hæfi.

(37-8)