Við elda Indlands

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1962
Flokkur: 

2. útgáfa: Reykjavík: Mál og menning, 1983.

Úr Við elda Indlands:

Ástæðan fyrir því að samræði er ekki hreinlega forboðið er sú, að það er í sjálfu sér álitið heilsusamlegt, enda mundi sjálfsafneitun á þessu sviði valda meiri innri átökum og sóun á kröftum en heilnæm ástundun samræðis, segja jóga-fræðimenn, aðeins að því tilskildu að lífsvökvinn sé varðveittur með hinni sérstöku aðferð, sem þeir nefna vajroli mudra.

Meðal alþýðu manna, sem ekki hefur hlotið þjálfun í þessum torveldu kúnstum, er óttinn við sáðlát engu minni en hjá jógunum. Sjálfsflekkun kvað vera fátíð meðal Hindúa, en þeim mun meiri verður hin innri spenna, og hið fjöruga ímyndunarafl virðist fá útrás í allskonar nuddi sem kemur gestinum skrýtilega fyrir sjónir. Hindúar hafa sýnilega nautn af að draga fæturna innundir sig og nudda hælunum við kynfærin. Í kvikmyndahúsum sitja langar raðir af Hindúum í þessari stellingu og mjaka sér svo bekkirnir leika á reiðiskjálfi. Það eru sérstaklega dansatriði kvikmyndanna sem kalla fram þennan gauragang. Söuleiðis er ekki ótítt að sjá Hindúa nudda sér uppvið kýr, staura eða félaga sína, en þeir gæta þess að koma aldrei of nálægt ókunnugum.

Leiðsögumaður minn í Khajúrahó var sítalandi allan tímann sem við skoðuðum musterin og óþreytandi að benda mér á nýjar stellingar elskenda, ný tilbrigði ástaleiksins sem hann gat aðeins látið sig dreyma um, því hann tjái mér að engar stúlkur í hans héraði mundu fást til að leika þesskonar listir með eiginmönnum sínum eða elskhugum.
(154-5)