Við fótskör meistarans

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2001
Flokkur: 

Úr Við fótskör meistarans:

Maður spyr sig stundum hvað sé tilviljun
og hvað hrein og klár örlög. Þegar dyrnar opnuðust hjá Haraldi um sjöleytið þá þekkti ég manninn og skildi að þetta gat ekki verið hending. Ég hef lent í þessu áður; að vera kannski einn á kaffihúsi og ákveð að drífa mig og þá kemur einhver inn sem ég kannast við og ég veit, þegar ég sé hann, að þetta er nákvæmlega maðurinn sem ég þarf að hitta á því augnabliki. Eða á að hitta, samkvæmt Stóra planinu. Og þegar ég sá Harald standa þarna og fór í huganum, mjög hratt, yfir atburðarásina, hvernig ég eins og fann mig knúinn til að taka ákvörðun, hvernig íbúðin eins og beið eftir mér og hvernig ég var einmitt heima þegar síminn hringdi, þá gat ég ekki annað en brosað með sjálfum mér. Það var svo augljóst að okkur hafði verið ætlað að hittast aftur. Hér og nú.
Þetta eru orðin nokkuð mörg ár. Ég kom stundum að skúra í skólanum þar sem hann kenndi og kannski er hann að kenna þar ennþá, hann er það virtur kennari. Það var af því að ég var í þessu sambandi við Möllu, sem ég er alltaf að reyna að gleyma, og hún komst ekki alltaf til að skúra, þó hún gerði það bara í afleysingum. Má eiginlega segja að ég hafi verið tekinn við stykkinu. Þá ræddum við Haraldur stundum saman af því að hann var oft lengur einn að stússa og einu sinni að ljósrita í ljósritunarkompunni um leið og ég ætlaði að skúra þar og ég sá út undan mér að þetta var skáldskapur sem hann var með í höndunum.
„Gyrðir er alltaf góður,” sagði ég og tók eitt blað upp um leið og það kom út úr vélinni. Ég renndi augum yfir ljóðið með hálflokuð augu. Mér fannst ég komast í meiri snertingu við innri lífæðar málflatarins, eins og ég kalla það, með því að píra augun. Ég lærði þetta á  myndlistarnámskeiði fyrir löngu. Kennarinn minn var þannig séð óþekktur málari sem sýndi aldrei, af því að hann seldi það mikið. Hann trúði mér fyrir því að maður gæti gert flestar myndir góðar með því að blanda örlitlu af Naples Yellow út í alla liti. Og í framhaldi af því hvatti hann mig til að horfa á málverkið úr hæfilegri fjarlægð með augun svolítið pírð, því „þannig sérðu betur heildarstemmninguna í myndinni,” eins og hann sagði. Síðan þá reyni ég alltaf að horfa svoleiðis á heiminn, ekki síst þegar mér finnst smáatriðin vera farin að þvælast óþægilega mikið fyrir því sem ég kalla the features eða aðalatriðin. Þetta er svona dæmi um það hvernig listgreinarnar geta stutt hvor aðra þó þær virðist ekkert eiga sameiginlegt á yfirborðinu nema kannski yfirborðið. Og hvernig ég sem listamaður get nýtt mér reynsluna þaðan til að skilja betur sjálft lífið. Það er nokkuð sem ég hef fundið mjög mikið fyrir á síðustu árum.
Blaðið var heitt.
„Hefur þú áhuga á Gyrði?” spurði Haraldur og var alveg hissa á þessum skúringarstrák.
„Við skáldin stöndum saman,” sagði ég og þannig byrjaði það. Hann heilsaði mér alltaf með nafni eftir þetta og ég fann að hann sá eitthvað meira í mér en þann Þráin sem skúraði í skólanum. Eins og honum væri ætlað að koma mér á næsta stig en ég væri ekki ennþá kominn á stigið þar á undan.
„Blessaður, Skáldi,” sagði hann stundum þegar hann gekk framhjá mér þar sem ég stóð með kústinn eða ryksuguna. Hann sagði það heldur hærra ef ég var með ryksuguna í gangi svo ég heyrði betur til hans. En þá var eins og ég vildi ekki heyra. Væri ekki tilbúinn. Og það hafði ekkert með hávaðann í ryksugunni að gera.
Orsökin kemur á undan afleiðingunni í þeim tilvikum þegar eitt leiðir af öðru.
Og nú var búið að stefna okkur saman aftur. Einmitt þegar ég er að taka ákvarðanir. Einmitt þegar ég finn að allt er að breytast. 
„Blessaður, Þráinn. Velkominn,” sagði hann og rétti mér höndina.
„Sæll.” Hann þekkti mig ekki.
„Gaman að sjá framan í þig.” Hann sleppti ekki hendinni alveg strax. „Þú lítur bara þokkalega út, kallinn minn.

(bls. 18-20)