Víkingagull

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2000
Flokkur: 

Úr Víkingagull:

 Bjólfi var ómögulegt að sjá út úr þessu krassi myndir eða rúnir eins og fundist höfðu á mörgum steinum frá tímum víkinganna. Hann hafði sjálfur skoðað einn slíkan klett við fornt brúarstæði nokkru fyrir utan Stokkhólm. Þar hafði einhver nafnlaus listamaður á víkingaöld teiknað myndir sem sýndu Sigurð Fáfnisbana takast á við drekann mikla sem lá á gulli Regins, og allt um kring voru rúnastafir sem auðvelt var að lesa enn í dag, þúsund árum eftir að þeir voru ristir í steininn.
 En þessir blettir voru allt öðruvísi. Það virtist ekki vera nein skipuleg hugsun á bak við niðurröðun þeirra.
 Hvað væri enda hægt að gefa til kynna með svona punktum og strikum? Kannski fjölda einhvers? Gæti til dæmis verið að punktur þýddi eina mælieiningu en strik aðra? En hver var þá mælieiningin? Og hvað var verið að mæla?
 Nei, það var tómt rugl að reikna með einhverju slíku.
 Hvað annað kom til greina?
 Bjólfur hélt áfram að velta möguleikunum fyrir sér.
 Gat þetta til dæmis verið ábending um landslag? Kannski áttu sum strikin, þau sem voru eins og litlar örvar í laginu, að sýna hóla og hæðir? Eða fjöll? Eða eyjar? Og hin strikin? Þessi löngu? Hvað gátu þau sýnt? Fjörð til dæmis? Eða strandlengju?
 Bjólfur hallaði sér snöggt fram á eldhúsborðið og rýndi enn frekar í myndina. Hann fann blóðið skyndilega streyma til höfuðsins og hjartað slá örar.
 Gat það virkilega verið? Var hugsanlegt að bakhliðin á skinnblaðinu væri einhvers konar kort?
 Hugmyndin var æsileg.
 En var nokkurt vit í henni?
 Sjálfur hafði hann ekki hugmynd um hvort víkingar hefðu yfirleitt kunnað að búa til kort, jafnvel þótt þau væru af frumstæðustu gerð.
 En ef þeir gátu það, af hverju var þá þetta kort? Hvar á hnettinum var þennan stað að finna?
 Um það var engar upplýsingar að hafa á þessu gamla skinnblaði.
 Hann var því í raun og veru engu nær, jafnvel þótt þessi óvænta og spennandi hugdetta kynni að vera á rökum reist.
 Samt lét tilhugsunin hann ekki í friði.

(s. 34-5)