Vitfirringur keisarans

Höfundur: 
Þýðandi: 
Útgefandi: 
Staður: 
Akureyri
Ár: 
2002

Um þýðinguna

Keisri Hull eftir Jaan Kross í þýðingu Hjartar.

Þýtt úr finnsku með hliðsjón af sænskri og enskri þýðingu.

Hvernig fer fyrir þeim sem segir harðstjóranum sannleikann? Hvernig fer til dæmis Rússakeisari með eiðsvarinn trúnaðarmann sinn sem stendur við heit sitt um skilyrðislausan heiðarleik og sannsögli? Getur verið að keisarinn álíti hann geðveikann? Vitfirringur keisarans ber svip sögulegrar skáldsögu og breiðrar þjóðlífslýsingar. Sagan er efnismikil, þrungin spennu ástar- og sakamálasögunnar og verður öllum minnisstæð vegna atburðarásar og mannlýsinga sem bera sálfræðilegu innsæi höfundarins vitni. Um leið er hún dæmisaga um eðli og afleiðingar valds og harðstjórnar sem höfundur fékk sjálfur að kenna á meðan hann var ungur og Eistland laut erlendu valdi, fyrst í vestri, síðar í austri. Jaan Kross er þekktasti og virtasti höfundur Eistlendinga sem nú er uppi, höfundur margra sögulegra skáldsagna og smásagna úr lífi Eistlands og eigin reynslu. Engin þeirra hefur þó farið meiri frægðarför en Vitfirringur keisarans sem þýdd hefur verið á ótal tungumál. Fyrir hana hefur hann hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga heima og erlendis. Hún var t.d. valin besta erlenda skáldsagan sem út kom í franskri þýðingu 1989. Fyrir hana fékk Kross bókmenntaverðlaun Amnesty International árið eftir og nafn hans hefur oft verið nefnt í sambandi við veitingu bókmenntaverðlauna Nóbels.

Úr Vitfirringi keisarans

Ég sé að í gær hætti ég í miðju kafi þegar ég var að skrifa um lundarlag og hár systur minnar. Jæja, Evu hefur frá náttúrunnar hendi hlotnast mjög fallegt, en reyndar ofur venjulegt hár, hár sem næstum er of algengt í þorpunum í Hostre-héraði og þeir sem hrifnir eru af fínum orðum kalla Tizian-ljóst, eftir því sem ég veit best. En ótalmargir tryðu því ekki þótt ég reyndi að fullvissa þá um það. Því að það man ég að það var daginn sem ár var liðið frá því að Timo var tekinn fastur, 19. maí 1819, sem Eva kom til okkar úr svefnherbergi sínu og settist hjá okkur við morgunverðarborðið - og við þekktum hana ekki: kvöldið áður hafði hún litað á sér hárið og nú stóð það upp af höfði hennar eins og kolsvartur fáni. Ég man, að þegar komið var með Jüri til móður hans (hann var þá átta mánaða gamall), þá fór hann að hrína eins og blásið væri í lúður þegar hann sá þessa framandi sjón... Og okkur varð öllum undarlega innanbrjósts. Ég spurði: „Hvers vegna gerðirðu þetta?“ Og Eva svaraði: „Til þess að hvorki ég né aðrir gleymi hvað mér hefur verið gert.“

(s. 12-13)

Hefði vitskertur maður getað skrifað þetta? Getur heilbrigður maður sagt þetta upp í opið geðið á keisara sínum? En ef keisarinn hefur látið heilbrigðan mann sverja sér eið upp á að segja sannleikann? Ef keisarinn hefur svipt heilbrigðan mann sínu venjulega frelsi til þess að ljúga? Æ, engum nema brjáluðum manni dettur í hug að láta slíkt flakka við keisara sinn..?!

(s. 217)