Vorhænan og aðrar sögur

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2000
Flokkur: 

Úr Vorhænunni:

Vandamál séra Þórðar

Allt í einu sagði séra Þórður, sóknarprestur í Grindavík, upp úr eins manns hljóði þegar hann sat í borðstofunni og beið rólegur eftir því að frú Jóna færði matinn upp úr pottunum og bæri hann á borðið:

María mey fæddi hrein mey og sonur hennar, Jesús, pipraði. Eftir þessu að dæma gæti maður haldið að eitthvað hafi ekki verið í lagi á heimili Jósefs trésmiðs; eða er Biblían kannski að skjóta á okkur?

Frú Jóna kom másandi úr eldhúsinu með rjúkandi matinn á fati og svaraði:

Hjónin hafa kannski verið stíf hvort við annað og til þess að fá mannlega hlýju hefur sonurinn safnað um sig tólf strákbjánum sem síðan voru kallaðir lærisveinar.

Það ætti nú bara að hafa verið þannig! sagði séra Þórður hlessa eins og honum hefði aldrei dottið það í hug sem lá reyndar í augum uppi.

Í sömu andrá kallaði frú Jóna:

Tóti, komdu, maturinn er kominn á borðið, láttu ekki bíða lengi eftir þér eins og venjulega!

Eftir þrálát köll kom Tóti loksins úr herberginu sínu og tólf smástrákar eltu hann. Faðir hans gjóaði augunum yfir röndina á súpudisknum og spurði kuldalega:

Við hvað varstu svona önnum kafinn, Messías minn, að þú nenntir ekki að koma í matinn meðan súpan var heit?

Við strákarnir vorum bara að leika okkur í bílaleik, svaraði Tóti ljúfmannlega og glaður.

Hvað ertu gamall, Messías minn? spurði faðirinn með prestlegri hægð og hæðni í rómnum enda var honum vel kunnugt um aldur sonar síns.

Ég varð þrjátíu og þriggja ára í desember um síðustu jól en það var ekki haldin nein sérstök veisla, svaraði Tóti.

Frú Jóna hafði sest til borðs og lotið höfði svo hún álpaðist ekki til þess að grípa fram í fyrir feðgunum.

Á þínum aldri hafði Kristur verið negldur á krossinn og búinn að deyja fyrir mannkynið en þú ert ennþá í bílaleik, sagði séra Þórður með kennimannslegum þunga sem honum var eiginlegur.

Dreptu mig ekki með því að vera stöðugt að tönnlast á þessu yfir súpunni, sagði Tóti. Það er tilgangslaust, pabbi, þú veist það enda ertu enginn fáviti.

Mamma hans kinkaði kolli og sagði:

Tóti minn, ég er þér hjartanlega sammála, en hefði ég verið Jesús og lent í óveðrinu á Genesaretvatninu myndi ég hvorki hafa kyrrt vind né sjó. Ég hefði ákveðið að taka loksins af skarið með leyfi guðs og látið bátinn farast en gengið þurrum fótum í land svo ég losnaði fyrir fullt og allt við strákbjánana. Ég er nefnilega ekkert fyrir að láta lærisveina smjaðra fyrir mér.

Það er þitt mál, ekki mitt, sagði Tóti stuttlega.

(7-8)