Ýmislegt um risafurur og tímann

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2001
Flokkur: 
Úr Ýmislegt um risafurur og tímann:

Það er sumsé þessi bíóferð...

Eru þetta fyrstu kynni mín af Línu Langsokk? Ég held það, en man þó ekki um hvað myndin var, nema hún Lína fór á sjóinn. Rámar í fallbyssuskot, náttsvart kyrrlátt haf, þarna eru Anna og Tommi en svo hrópar Lína hæ og hó og þá verður gífurlegur hasar. Við erum sjö, strákarnir. Ég segi við Björn: Nú verður allt vitlaust, og hann segir, já, maður. Við bíðum bara eftir merkinu frá Arne, hann mun segja: Rífum upp sætin, drekkjum dyraverðinum í poppkorni, rænum sælgætinu, sprænum yfir allt. En rétt áður en Arne gefur skipunina afdrifaríku, myrkvast salurinn, ljósgeisli sker sig í gegn, Lína sprettur upp á tjaldinu og svo heldur hún á hesti. Maður bíður átekta, gerir hálfvegis ráð fyrir að Arne gefi lítið fyrir Línu, sem er náttúrlega stelpa, meira að segja rauðhærð og með freknur. En sé Arne magnaður þá er hún greinilega svakaleg, því þarna heldur hún á hestinum og Arne segir vá, síðan þegir hann, horfir bara, örlítið opinmynntur af hrifningum, og þá göpum við hinir af aðdáun. Þessi Lína, segi ég, hún er svakaleg, en þá fussar Tarzan svo hátt og höstuglega að ég dauðhrekk við. Uss, segi ég, sjáðu hvað þetta er frábært, sjáðu bara, sjáðu bara Línu! Salurinn gargar af hlátri og það krymtir í Léttfeta. Lína, sterkust allra!
Tarzan fussar, tuldrar eitthvað. Svo segir hann að þetta sé það heimskulegasta sem hann hafi séð.
Tarzan: Það er enginn svona sterkur, ekki einu sinni fílinn Tantor. Það getur engin manneskja lyft hesti, hestar eru virkilega þungir.
Ég: Láttu ekki svona, horfðu bara á myndina.
Tarzan: Þetta er bara þvæla, þetta er fyrir smábörn, það er ekkert að marka þetta, ég er farinn; förum strax!
Léttfeti: Lína er fín.
Tarzan stendur snöggt upp, strunsar út úr salnum, svo reiður að hann slær poppkornspoka úr höndum eins stráks. Lína lyftir feita bófanum upp og kastar honum eins og steinvölu.

(s. 120 - 121)