Z : ástarsaga

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1996
Flokkur: 

Úr Z: ástarsögu:

Ég ætla að hugsa til þín í New York.

Ég sé þig fyrir mér á kaffihúsi á horninu á Fjórða-
stræti þar sem kínversku hjónin með rósóttu svunt-
urnar vinna. Ég skil ekkert í því en þau eru sífellt að
benda með þumlunum á borðið við stigann. Og allt í
einu átta ég mig á hvers vegna. Það er vegna þess að
þú situr þar, snýrð í mig baki og veist ekki af mér. Ég
hvísla að Hrafni að ég þurfi að bregða mér frá, geng
fram hjá borðinu þínu, snerti öxl þína, þú ert í blá-
um kjól, lítur upp og brosir, mikið sem þú brosir
fallega. Og hjónin benda okkur á stigann, það er
tjald fyrir stiganum og við setjumst í tröppurnar. Ég
gleymi aldrei hálsi þínum í stiganum á veitingahús-
inu á Fjórðastræti, á hálsinum er æð sem ég sogast
að og ég gleymi því næstum að Hrafn situr og bíður
mín.

Ég ætla að hugsa til þín í New York.

Ég sé þig fyrir mér á röndótta barnum á móti The
New C. Við Hrafn drekkum pinacolada, erum að
bíða eftir fjórða umgangi. Hann er orðinn hífaður og
byrjaður að tala um að við verðum að skipta um
íbúð. Ég hugsa um hvað þú hefur fallega húð en læt
sem ég hafi áhuga á hvernig parketið á að vera í
stofunni. Húð þín er allsstaðar falleg en fallegust á
bakinu. Þegar þjónninn kemur með glösin ýtir hann
til mín umslagi. Hrafn sér ekkert, mér tekst að opna
það, dreg upp bréf frá þér, ég lít upp og þú stendur
fyrir aftan hann. Þú gefur mér merki um að koma,
ég elti þig út á götuna og við elskumst hratt og
ofsalega í húsasundinu við hliðina á C.

Ég ætla að hugsa til þín í New York.

Ég sé þig fyrir mér allsstaðar.
Þú ert stúlkan í miðasölunni.
Þú ert aðalleikkonan í myndinni sem við ætlum að
sjá.
Þú ert þjónustustúlkan á hótelinu.
Stúlkan í lyftunni.
Nektardansmærin í næturklúbbnum.
Fyrirsæta málarans á málverkasýningunni á Xinu.
Flottasta stjarnan á Broadway.
Ég sé þig fyrir mér allsstaðar.
Og í rúminu við hliðina á mér á kvöldin, ég snerti
augu þín, hálsinn, brjóstin, allt og gleymi mér og bít,
sökkvi tönnunum í háls þinn, lengra og lengra, sýg
ást þína með blóðinu, allt verður þú, og Hrafn, hann
verður líka þú.
Ímyndun mín gerir öll ferðalög án þín að ferðalögum
með þér. Án ímyndunnar minnar kæmist ég ekkert.
Hefði ég hana ekki kæmist allt upp.
    Innilegar kveðjur, Z.

(123-124)