Ársfundur skapandi borga UNESCO

Bókmenntaborgir UNESCO á ráðstefnu Skapandi borga

Ellefti ársfundur Samstarfsnets skapandi borga UNESCO, UNESCO Creative Cities Network, var haldinn í Enghien-les-Bains í Frakklandi dagana 30. júní – 2. júlí 2017. Yfir 300 þátttakendur frá meira en 100 borgum voru á ráðstefnunni, þar á meðal borgarstjórar og aðrir pólitískir fulltrúar frá fjölda borga.

Fulltrúar Bókmenntaborga UNESCO voru 24 og komu þeir frá Barcelona, Dublin, Edinborg, Granada, Heidelberg, Iowa City, Kraká, Ljubljana, Lviv, Norwich, Nottingham, Prag, Reykjavík, Tartu og Ulyanovsk. Borgarstjóri Dunedin, David Cull, og varaborgarstjóri Dublinar, Rebecca Moynihan, tóku einnig þátt í ráðstefnunni.

Fulltrúar Bókmenntaborga UNESCO

Verkefni kynnt 

Fyrir ársfundinn hittist starfsfólk Bókmenntaborganna til að kynna verkefni sín hvert fyrir öðru, ræða samstarfið og bera saman bækur sínar. Fulltrúi Bókmenntaborganna í stýrihópi Skapandi borga UNESCO, Justyna Jochym frá Bókmenntaborginni Kraká, kynnti síðar starfsemi Bókmenntaborganna fyrir þátttakendum á ársfundinum svo og ársfundinn í júní á næsta ári, sem Kraká hýsir ásamt nágrannaborg sinni Katowice, sem er Tónlistarborg UNESCO. Borgarstjórar Dunedin og Dublin kynntu sínar borgir í pallborði borgarstjóra og fulltrúar þriggja annarra Bókmenntaborga UNESCO fjölluðu um verkefni sem talin eru hafa skarað framúr í pallborðsumræðum og vinnustofum, m.a. kynnti Kristín Viðarsdóttir starf Bókmenntaborgarinnar Reykjavíkur með rithöfundum af erlendum uppruna í pallborði um sjálfbærniviðmið UNESCO

Pallborð um sjálfbærniviðmið UNESCO

Stefnumörkun

Á ársfundinum var nýtt regluverk um starfsemi Skapandi borga UNESCO samþykkt en það leggur grunninn að áframhaldandi vexti samstarfsnetsins og skerpir stefnumörkun þess og framtíðarsýn. 

  • „Með þessu hefur Samstarfsnet skapandi borga UNESCO öðlast sameiginlega framtíðarsýn sem miðar að því að gera sem mest úr bæði samstarfinu og borgunum.” sagði Francesco Bandarin, varaframkvæmdastjóri UNESCO. „Samstarfsnetið tekst á við samfélög okkar og þær áskoranir sem þau fela í sér og það byggir upp borgir sem taka mið af fólkinu sem í þeim býr. Skapandi borgir eru ekki tískustefna, heldur veruleiki. Með þeim fóstrum við sjálfbæra þróun borga í efnahagslegu, samfélagslegu og umhverfislegu tilliti. Til þess að ná sjálfbærniviðmiðum UNESCO (Sustainable Development Goals) þurfum við að beita þeim öflugu tækjum sem felast í menningarstarfi og sköpun.”

Þessu til viðbótar samþykktu borgarstjórar frá Skapandi borgum UNESCO á fundinum áskorun þar sem borgir í samstarfsnetinu eru hvattar til að gera menningarstarf enn frekar að hluta af stefnumörkun og liðka fyrir samstarfi sem byggir á nýsköpun og öðru skapandi starfi. 

Ársfundur Skapandi borga UNESCO 2017

Samstarfsnet Skapandi borga UNESCO hefur vaxið hratt á síðustu árum og telur nú 116 borgir í 54 löndum. Fleiri borgir bætast í netið í nóvember næstkomandi þegar UNESCO útnefnir nýjar borgir á eftirtöldum sjö listsviðum: bókmenntum, handverki og alþýðulist, hönnun, kvikmyndalist, margmiðlunarlist, matagerðarlist eða tónlist. 

Nánari upplýsingar um Samstarfsnet skapandi borga UNESCO er að finna á vef UNESCO og þar má einnig lesa meira um ársfundinn í Enghien-les-Bains.