FRÁ BERTEL TIL BRÍETAR

FRÁ BERTEL TIL BRÍETAR – PÍLAGRÍMSGANGA UM REYKVÍSKAN ÓDÁINSAKUR

Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Sögufélagið bjóða borgarbúum og öðrum gestum í bókmennta- og sögugöngu um miðborg Reykjavíkur laugardaginn 21. september undir leiðsögn Jóns Karls Helgasonar. Hann hefur nýlega sent frá sér bókina Ódáinsakur: Helgifesta þjóðardýrlinga þar sem fjallað er um það hvernig minning markverðra einstaklinga, ekki síst skálda og listamanna, hefur verið ræktuð opinberlega hér á landi á síðari öldum. Safnast verður saman við Hljómskálann kl. 15.00 og byrjað á því að heimsækja myndlhöggvarann Bertel Thorvalssen og þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson. Þaðan verður gengið meðfram Tjörninni niður á Austurvöll  og svo áfram að Stjórnarráðinu við Lækjargötu og að Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu, en göngunni lýkur í Þingholtunum þar sem finna má nýlegt minnismerki um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur. Athygli verður beint að sögu þessara og fleiri minnismerkja á svæðinu en einnig rifjuð upp saga beina Jóns Arasonar og þær deilur sem nýlega urðu um þjóðardýrlinginn Halldór Laxness. Gangan tekur um eina og hálfa klukkustund. Ekki þarf að bóka þátttöku, bara mæta við Hljómskálann stundvíslega kl. 15.  

Um bókina Ódáinsakur: Helgifesta þjóðardýrlinga

Í bókinni fjallar Jón Karl Helgason bókmenntafræðingur með fjölbreytilegum hætti um eðli og hlutverk þjóðardýrlinga og kortleggur þær aðferðir sem notaðar eru til að rækta minningu þeirra á opinberum vettvangi. Höfuðáhersla er lögð á skáld og listamenn en stjórnmálamenn og trúarhetjur koma einnig við sögu. Meðal annars er rýnt í íkonamynd Jóhannesar S. Kjarvals á forsíðu tekjublaðs Frjálsrar verslunar og rifjað upp þegar meintar jarðneskar leifar Jóns biskups Arasonar voru grafnar upp á Hólum og teknar til varðveislu í Kristskirkju í Reykjavík. Þá ber arfleifð Jónasar Hallgrímssonar töluvert á góma; bent er á að valið á honum sem þjóðskáldi Íslendinga var engan veginn sjálfgefið á 19. öld og eins varpað ljósi á nýlegar deilur um valið á honum og lóu sem myndefni á tíu þúsund króna seðli. Einn kafli verksins er helgaður uppröðun á myndastyttum í Reykjavík og þeirri breytingu sem varð á henni á fjórða og fimmta áratug liðinnar aldar. Þá er fjallað um tvö ólík verk sem byggja á ævi Halldórs Laxness, annars vegar fyrsta bindi ævisögu hans eftir Hannes Hólmstein Gissurarson og hins vegar leikritið Halldór í Hollywood eftir Ólaf Hauk Símonarson, en eðlilegt er að líta á þau bæði sem endurritun ýmissa eldri verka. Íslensku þjóðardýrlingarnir eru auk þess settir í samband við menningarlega þjóðardýrlinga annarra Evrópuþjóða, ekki síst slóvenska þjóðskáldið France Prešeren og danska ævintýraskáldið H.C. Andersen.