Here North Wrote

Ritsmiðja með Angelu Rawlings

Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO, í samvinnu við Café Lingua, býður upp á ókeypis ritsmiðjur með Angelu Rawlings í maí. Smiðjurnar eru opnar öllum 18 ára og eldri og þátttakendur geta skrifað á íslensku eða hvaða öðru máli sem er. Here North Now mun leggja áherslu á óhefðbundnar skrifæfingar og leiki sem miða að því að laða fram sköpunarkraft þátttakenda. Leikið verður með tungumálið á óvenjulegan hátt og sjónum beint að því hvernig við erum vön að skrifa og hvernig við lítum á skrif og þessi nálgun brotin upp. Hluti smiðjunnar fer fram utan dyra þar sem farið verður í hljóðagöngu (sound-walk) til þess að safna skynhrifum og umhverfisáhrifum í sarpinn fyrir skrifin. Fólk er beðið um að taka með sér pappír eða stílabók og uppáhalds skriffærið sitt (penna, blýant, tússlit o.s.frv.) og klæða sig eftir veðri. Einnig er gott að taka með sér nesti. Kennslan fer fram á ensku en þátttakendur geta skrifað sinn texta á hvaða tungumáli sem er. Unnið verður með ný verk og því er engin þörf á að koma með tilbúinn texta. Allir eru velkomnir, hvort sem fólk hefur aðallega fengist við að skrifa innkaupalista eða hefur gefið út margar bækur.

Hvenær:

Smiðjurnar fara fram dagana 4. og 11. maí og standa yfir í tvær til þrjár klukkustundir hvorn dag. Nánari tímasetning verður auglýst síðar en smiðjurnar munu fara fram að deginum til. Nauðsynlegt er að taka þátt báða dagana.

Hvar:

Staðsetning verður tilkynnt síðar en smiðjan fer fram miðsvæðis í Reykjavík.

Bókanir:

Allar nánari upplýsingar veitir Kristín Viðarsdóttir, kristin.vidarsdottir@reykjavik.is og hún tekur einnig við bókunum. Þar sem þátttakendafjöldi er takmarkaður borgar sig að bóka þátttöku tímanlega.

Um leiðbeinandann

Angela Rawlings hefur stýrt ritsmiðjum á Íslandi, í Kanada og í Ástralíu síðusta áratuginn eða svo. Hún hefur komið fram og gefið út skáldskap í mörgum löndum, en býr nú á Íslandi og segir sjálf að það sé blessun. Ljóðabók hennar Wide Slumber for Lepidopterists (Coach House Books, 2006) verður sett á svið af Bedroom Community og VaVaVoom í formi tónleikhússverks á Listahátíð í Reykjavík í maí 2014.   Sjá erindi sem Angela Rawlings flutti á dagskrá um austurrísku skáldkonuna Melittu Urbancic í Þjóðarbókhlöðunni þann 8. mars 2014. Nánar um Angelu Rawlings