Hin svokölluðu skáld

Ljóðadagskrá í stóra salnum í Háskólabíói

Hin svokölluðu skáld er yfirskrift ljóðadagskrár sem tíu skáld, sem líta á sig sem ungskáld, standa fyrir í stóra salnum í Háskólabíói laugardaginn 12. apríl 2014 klukkan 14.00. Skáldin eru: Davíð Þór Jónsson, Sigrún Haraldsdóttir, Valdimar Tómasson, Teresa Dröfn Njarðvík, Aðalsteinn Svanur Sigfússon, Snæbjörn Ragnarsson (Bibbi í Skálmöld), Þórunn Erlu Valdimarsdóttir, Örlygur Benediktsson, Eva Hauksdóttir og Bjarki Karlsson. Kynnir er Sigurður Karlsson, leikari og þýðandi. Í fréttatilkynningu frá hópnum kemur fram að fyrirmyndin að viðburðinum sé hin fræga ljóðadagskrá Listaskáldanna vondu, sem fyllti Háskólabíó árið 1976.  Nafn hópsins kallast á við nafn þeirra, salurinn er sá sami og kynnirinn einnig. Eitt skáldanna flutti ljóð við tónlist og eitt þeirra var reyndara og viðurkenndara en hin á þessum tíma. Hin svokölluðu skáld leika þetta eftir því Aðalsteinn Svanur flytur ljóð sín við eigin undirleik og þau tefla Þórunni Erlu fram sem fulltrúa hinna reyndari skálda. En gefum skáldunum sjálfum orðið: „Við, Hin svokölluðu skáld, föllum hvorki undir aðferðir listaskáldanna né erum í uppreisn gegn þeim. Það sem einkennir okkur er að við yrkjum á bundnu máli. Stuðlum allt og rímum flest. Erum sem sagt hvorki atómskáld né póstmódernistar (Þórunn hefur reyndar fyllt þann flokk en nú kveður við nýjan tón hjá henni). Við beitum þessum fornu stílbrögðum á persónulegan hátt og tölum við samtíma okkar, ekki fortíðina. Við erum nýtt vín á gömlum belgjum, ekki skugginn af Skólaljóðunum. Það hefur vakið athygli að við seljum inn á atburðinn en fólk á því að venjast að ljóðaupplestur sé ókeypis. Við kusum þó að fara þessa leið, að sækjast ekki eftir styrkjum, hvorki frá opinberum aðilum né einkaaðilum. Við erum því engum háð nema þeim sem kaupa miða og vonumst til að geta sýnt fram á að ljóðið sé sjálfbært.“ Sjá nánar um viðburðinn á Facebook síðu Hinna svokölluðu skálda.