Samlíðan í bókmenntum

Dagana 3. - 6. apríl 2014 verður haldin ráðstefna um samlíðan í bókmenntum á vegum Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands. Markmið ráðstefnunnar er að varpa ljósi á ýmsar hliðar samlíðunar út frá bókmenntum, tungumáli og samfélagi. Fyrirlestrar eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir en þeir eru haldnir í samstarfi við Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO. Aðalfyrirlesarar eru þau Dirk Geeraerts frá Leuven háskóla í Belgíu og Suzanne Keen frá Washington og Lee University í Bandaríkjunum. Erindin eru fjölbreytt og verður þetta áhugaverða efni skoðað frá ólíkum hliðum. Hugtakið samlíðan (empathy) hefur verið notað innan sálfræðinnar í um hundrað ár, en heimspekingar og listamenn hafa velt fyrirbærinu fyrir sér um aldir. Umræða um samlíðan í fræðaheiminum og rannsóknir á henni hafa aukist verulega síðustu ár og hugtakið hefur líka fengið meiri athygli í fjölmiðlum og í samfélagslegri umræðu. Skrif taugasérfræðinga, heimspekinga og sálfræðinga um tengsl samlíðunar og taugaboða kalla á nýja nálgun á spurninguna um hvernig bókmenntir og tungumál kalla fram samlíðan. Á ráðstefnunni verður sjónum meðal annars beint að því hvernig samlíðan birtist í eldri textum og menningu svo og í bókmenntum og fræðitextum í samtímanum.

Er ástæða til að vera hræddur við að týna sér í skáldskaparlestri?

Opnunarfyrirlesturinn heldur Suzanne Keen, prófessor við Washington og Lee háskóla. Hann ber yfirskriftina Lost in a Book: Empathy and Immersion in Fiction. Keen hefur kannað samlíðan árum saman en bók hennar Empathy and the Novel (Samlíðan og skáldsagan) kom út árið 2007. Fyrirlesturinn verður haldinn í stofu 301 í Árnagarði fimmtudaginn 3. apríl kl. 12 og er hann fluttur á ensku. Allir sem áhuga hafa á sagnalestri og samlíðan eru hvattir til að mæta.

Útdráttur úr fyrirlestrinum á íslensku:

Með því að dýpka þau tengsl sem lesandi finnur til með ímynduðum innbyggjum tiltekins söguheims getur frásagnarsamlíðan ýtt undir þá blekkingu að menn hverfi inn í skáldaðan heim. Hvernig markar slík reynsla lesandann? Í fyrirlestrinum fjallar Keen um hvað gerist þegar lesendur verða „niðursokknir“ í bók og hvað kann að gerast þegar þeir skjóta aftur upp kollinum í veruleikanum. Rannsóknarniðurstöður um efnið verða metnar og þær bornar saman við viðteknar hugmyndir manna um áhrif skáldskapar. Tengslin milli manngæsku, samlíðunar og þess að hverfa inn í tiltekinn söguheim við lestur verða skoðuð. Keen spyr hvort það sé rétt að því dýpra sem menn hverfa inn í söguheiminn, og því sterkari sem samlíðan þeirra með persónum sé, því meiri líkur séu á að þeir hjálpi öðrum í veruleikanum. Nýjar rannsóknir benda til að það hafi meiri áhrif að menn sjái hluti og aðstæður fyrir hugskotssjónum sér en að „þeir setji sig í spor annarra“. Þær renna stoðum undir það sem hefur stundum verið afgreitt sem „flótti frá veruleikanum“. Er ástæða til að lofa (eða óttast) það þegar menn verða eitt með skálduðum heimi?

Útlendingurinn, Íslendingasögur og vampírur

Meðal fjölmargra annarra áhugaverðra fyrirlestra fyrir bókmenntaáhugafólk má nefna erindi Joönnu Gavins um Útlendinginn eftir Albert Camus. Hann nefnist "Inside the Outsider" og fer fram sunnudaginn 6. apríl kl. 14:30 í stofu 201 í Árnagarði. Þar mun Gavins velta því fyrir sér af hverju margir lesendur finna til samlíðunar með söguhetjunni Meursault þrátt fyrir það að hann virðist sjálfur sneiddur hæfileika til að finna til með öðrum. Þá má nefna erindi Bergljótar Kristjánsdóttur um samlíðan og viðtökur Íslendingasagna,  fyrirlestur Söruh Whiteley um skáldsöguna Never Let Me Go eftir Kazuo Ishiguro, erindi Louise Nuttall, "Attributing Minds to Vampires"  um vísindaskáldsöguna I am Legend eftir Richard Matheson og erindi Agnieszku Marszalek um samlíðan og húmor í bókmenntum. Fyrirlestur Bergljótar er á dagskrá laugardaginn 5. apríl kl. 15:30 og er sá síðasti á dagskrá þess dags, en hinir þrír eru allir á sunnudeginum 6. apríl.

Kenningin um líkamsvessana

Hinn aðalfyrirlesari ráðstefnunnar er Dirk Geeraerts, málvísindamaður og prófessor við Háskólann í Leuven. Hann heldur erindi mánudaginn 7. apríl kl. 12.00 um hugtakið „emotion“ (geðshræring). Geeraerts er þekktur fyrir störf sín í þágu hugrænna málvísinda (cognitive linguistics) og hefur samið mörg verk á sviði hugrænnar merkingarfræði. Af nýlegum verkum hans má nefna Theories of Lexical Semantics (2010). Fyrirlesturinn verður haldinn í stofu 201 í Árnagarði og fluttur á ensku. Hann ber yfirskriftina „The theory of humors and the origin of 'emotion'“ (Kenningin um líkamsvessana og uppruni orðsins „emotion“). Allir áhugamenn um læknisfræðihugmyndir miðalda, mál og málsögu eru hvattir til að mæta.

Útdráttur úr fyrirlestrinum á íslensku:

Hugtakið „emotion“, tjáð með íslenska orðinu „geðshræring“, er augljós líking: geðshræringar eru umrót hugans. En hvað um sjálft enska orðið „emotion“? Í fyrirlestrinum verður hugað að orðsifjum orðsins „emotion“ og sú athugun fer aftur til fornfrönsku sagnanna mouvoir (hreyfa) og émouvoir (hreyfa við/hræra). En öfugt við það sem menn gætu ætlað, er hreyfingin sem þessar sagnir vísa til þegar þær fá sálfræðilega merkingu, bókstafleg en ekki líking: hugtakið „emotion“ sprettur í tengslum við kenningu innan læknisfræði miðalda um líkamsvessana fjóra (blóð, flemína, svartablóð og rauðbrúnt blóð) sem stýra jafnvægi líkama og hugar. Ef hugað er grannt að fornfrönskum textum blasir við að samkvæmt kenningunni um líkamsvessana er umrót hugans bein afleiðing af bókstaflegu umróti líkamsvessanna. Heildardagskrá ráðstefnunnar og útdrátt úr erindum má sjá á vef ráðstefnunnar, Empathy in Language, Literature and Society