Beint í efni

Að kasta flugu í straumvatn er að tala við guð

Að kasta flugu í straumvatn er að tala við guð
Höfundur
Bubbi Morthens
Útgefandi
JPV útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2007
Flokkur
Ferðasögur,
 Smásögur

um bókina

Hér stíga fram margar og ólíkar persónur - næmir og fróðir veiðimenn og leiðsögumenn, vanir menn og óvanir, hættulegir veiðifiklar sem leggja allt í sölurnar, fyllibyttur og banvænar ljóskur sem borða strákahjörtu í morgunmat, hrútfúll leigubílstjóri og einn sem lifði af útrýmingarbúðir og óralangt ferðalag fótgangandi yfir hálfa Evrópu í von um að verða einhvern tíma svo ríkur að hann gæti veitt lax.

Laxarnir eru líka persónur; sumir stórir með alla orku heimsins ólgandi í sér og víðáttu hafsins í blóðinu, sumir algerir töffarar og geðvondir naglar, aðrir stríðnispúkar sem hafa yndi af að leiða laxveiðimann í ógöngur - og svo eru þeir sem frelsa konur.

En spurningin eilífa er: Hvor veiðir hvorn?

úr bókinni

Arkitektinn
(sagan og laxinn sem endaði á veggnum)

Hann var lágvaxinn, horaður, boginn í baki með rúnum rist andlit, fótafúinn og keðjureykti franskar sígarettur, síhóstandi og fór fetið. Hann hafði stór brún augu sem voru full af kímni, talaði enskuna með hreim sem erfitt var að átta sig á. Honum lá lágt rómur. Frá honum stafaði hlýju og það var gott að vera nálægt honum.
   Við sátum á bakkanum, vorum að spjalla. Það hafði lítið verið að gerast uppfrá þar sem ég hafði verið að veiða svo ég ákvað að kíkja á gamla, eins og hann var kallaður. Staðurinn þar sem hann átti að veiða var auðveldur yfirferðar og hafði honum verið úthlutað honum vegna þess hvað hann var líkamlega slappur. Ég hafði verið hjá honum í um það bil 5-10 mínútur og reykurinn stóð stanslaust út úr honum
   Hefur þú aldrei pælt í því að hætta þessum reykingum? Spurði ég.
   Hann leit á mig. Nei, til hvers? Ég nýt þess að reykja og svo á ég ekki svo langt eftir, svaraði hann lágri, hásri reykingaröddu. Þegar maður hefur lifað af útrýmingarbúðir nasista og gúlaggið hjá Stalín þá eru reykingar lítið mál, bætti hann við og hló inni í sér.
   Ha? sagði ég, útrýmingarbúðir nasista? Stalín? Hvað ertu að tala um?

Ég var tíu ára og sá eini sem lifði af. Öll fjölskyldan mín, tvær systur, faðir minn, móðir mín, afi minn létu lífið þar. Helvíti er til, það er ávallt hér á jörðu og það skiptir um nafn reglulega. Hjá minni kynslóð hét það til dæmis Dachau og Auschwitz. Helvíti þinnar kynslóðar er...? sagði hann í spurnarróm og beið eftir svari.
   Ég veit það ekki, sagði ég. Ætli það sé bara ekki velmegunin? bætti ég svo við.
   Já, þú heldur það, sagði hann og þagði um stund. En ég veit hvar paradís er að finna, sagði hann svo: Hvar sem áin er full af laxi! sagði hann og brosti, varð síðan alvarlegur á svip.

(s. 65-66) 

Fleira eftir sama höfund

orð, ekkert nema orð

Orð, ekkert nema orð

og niðrí myrkrinu má sjálfsagt finna tilgang.
Lesa meira

Öskraðu gat á myrkrið

Lesa meira

Velkomin

Lesa meira

Hreistur

Lesa meira

Djúpríkið

Lesa meira

Bubbi - samtalsbók

Lesa meira