Beint í efni

Ævintýri

Ævintýri
Höfundur
Jonas T. Bengtsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2015
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Skáldsagan Et eventyr eftir Jonas T. Bengtsson, í íslenskri þýðingu Ísaks Harðarsonar.

Um bókina

Drengurinn veit ekki hvað hann heitir en Peter er ágætt nafn. Hann er í felum með föður sínum, utan samfélagsins. Faðirinn snapar vinnu við antíkfalsanir, garðyrkju, sem dyravörður á strippbúllu – og kennir syni sínum heimspeki, listasögu, latínu en líka að stela, blekkja og komast af hvað sem það kostar.

Hann segir drengnum ævintýri til að útskýra flökkutilveru þeirra; ævintýri um kóng og prins á flótta undan útsendurum hinnar illu hvítu drottningar. Eina leiðin til að losna undan álögunum er að stinga drottninguna í hjartastað. Dag einn breytist ævintýrið í veruleika og tíu árum síðar stendur drengurinn uppi með annað líf, annað nafn – og fer að leita að sjálfum sér.

Ævintýri er heilsteypt lýsing á uppvexti á mörkum ævintýris og dauðans alvöru, þroskasaga þar sem rótleysi og skuggar fortíðar takast á.

Úr bókinni

Pabbi dregur húfuna niður eyrun á mér. Það er napur haustdagur, og hann blístrar á elið okkar eftir götunni. Ég veit að hann kann að meta vor og haust, upphaf og endi, eins og hann kemst að orði. Allt annað er bara til uppfyllingar.

Pabbi heldur þungri hurðinni opinni fyrir mig, og ég elti hann gegnum anddyri með dökkum viðarþiljum og upp stiga. Við göngum fram hjá ungu fólki með bækur í fanginu og staðnæmumst fyrir framan aðrar dyr. hanan þeirra heyri ég raddir sem tala hver ofan í aðra. Pabbi tekur af mér húfuna og sléttir á mér hárið. Hann leggur höndina á hurðarhúninn, hikar við eitt augnablik og opnar svo dyrnar inn í sal, fullan af fólki. Við erum þeir einu sem eru ekki sparibúnir.

Ég held fast í hönd pabba, er hræddur um að týnast. Hann leiðir sig fram hjá fólki sem drekkur vín úr háum glösum og talar hátt og hlær hátt. Ég er sífellt í þann veginn að rekast á einhvern.

Svo stöndum við fyrir framan borð sem er fullt af mat, og pabbi sleppir höndinni á mér.

„Borðaðu þig saddan,“ segir hann. „Ég kem aftur rétt strax.“

Hann hverfur inn á milli sparibuxna og sparijakka.

Á stóru silfurfati er matur festur á tannstöngla.

Ég næli mér í einn bita til reynslu, er viss um að einhver muni hrópa Halló, hvern fjandann ertu að gera? En enginn horfir í áttina til mín, enginn horfir raunar lægra en í brjósthæð. Ég byrja við annan borðsendann. Flest er virkilega vont á bragðið, þeim bitum fleygi ég undir borðið þar sem hundurinn minn situr. Ef fólkið talaði ekki svona hátt gæti maður heyrt smjattið í honum.

Ég sleppi ostinum með sterku lyktinni en borða mörg vínber. Ég enda á fati með eggjasalati á örlitlum ristuðum brauðsneiðum. Ég byrja yst á fatinu og borða mig inn að miðjunni.

„Þú ert orðinn stór,“ heyri ég einhvern segja þétt upp við eyrað á mér, og ég fæ strax sting í magann. Ég sný mér við og horfi beint í dökkbrún augu, einhver kona hefur sest á hækjur sér við hliðina á mér.

„Ef þú ert búinn að borða nóg af eggjasalatinu, þá held ég að við ættum að fara til pabba þíns.“ Hún tekur í höndina á mér, og ég fylgi á eftir henni.

„Gamli prófessorinn okkar er að hætta í dag en pabbi þinn hefur áreiðanlega sagt þér það,“ segir konan yfir öxlina á sér. Hún leiðir mig gegnum völundarhús af fótleggjum og bókum.

(54-5)

Fleira eftir sama höfund