Beint í efni

Alkemistinn

Alkemistinn
Höfundur
Paulo Coelho
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
1999
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Paulo Coelho: O Alquimista.  

Skáldsagan Alkemistinn  (O Alquimista) er eftir brasilíska höfundinn Paulo Coelho. Hún kom fyrst út árið 1988 og hefur síðan verið þýdd á fjölmörg tungumál. Thor Vilhjálmsson þýddi söguna úr portúgölsku.

Í bókinn segir af piltinum Santíago sem hefur hætt í prestaskóla og gerst hjarðsveinn því hann langar til að ferðast.

Hann dreymir sama drauminn aftur og aftur um að hans bíði fjársjóður. Seinna verður á vegi hans maður sem þekkir ævi hans liðna og ókomna og segir honum að hver maður eigi sinn Örlagakost. Pilturinn afræður að selja hjörð sína og fylgja draumi sínum á leiðarenda - allt til pýramíða Egyptalands.

Úr Alkemistanum:

Ég er konungurinn í Salem, hafði sá gamli sagt.
- Hvernig stendur á því að konungur gefur sig á tal við fjárhirði? spurði ungi maðurinn skömmustulegur en jafnframt fullur aðdáunar.
- Til þess liggja ýmsar ástæður. En segja má að sú sé ríkust að þú hefur reynzt fær um að sækja eftir þínum rétta Örlagakosti.
Ungi maðurinn vissi ekki hvað Örlagakostur var.
- Það er það sem þú þráir alltaf að gera. Allir menn vita í frumbernsku hver er þeirra ævikostur. Á því skeiði ævinnar er allt hægt og enginn ótti fælir frá því að láta sig dreyma og þrá allt sem mann langar að gera um ævi sína. En svo þegar tíma vindur fram þá koma til skjalanna dularöfl og fara að reyna að sýna fram á að það sé ekki vegur að heimta þennan Örlagakost og láta hann rætast.
Það sem gamli maðurinn var að segja var harðla óljóst fyrir unga manninum. En hann langaði að vita hvað væru dularöfl; kaupmannsdóttirin ætti eftir að hlusta opinmynnt þegar það bæri á góma.
- Það eru öfl sem virðast illskeytt, en í rauninni eru þau að kenna þér hvernig þú átt að fara að því að heimta þinn Örlagakost. Þau eru að þroska anda þinn og magna þrá þína af því það ríkir einn djúprættur sannleikur á þessari plánetu: Hver sem þú ert og hvað sem þú gerir, þegar þú þráir eitthvað af alefli þá á sú ósk upptök sín í Alheimssálinni. Það er hlutverk þitt á jörðinni.
- Jafnvel þótt það sé bara að ferðast? Eða giftast dóttur vefnaðarvörukaupmanns?
- Eða leita að fjársjóði. Alheimssálin nærist á hamingju mannanna. Eða óhamingju, öfund, afbrýði. Að eignast sinn Örlagakost og láta hann rætast er eins skylda mannanna. Allt er af einu runnið. Og þegar þú þráir einhvern hlut þá stuðlar allur Alheimurinn að því að þú getir látið þrá þína rætast.

(s. 32 - 33)

Fleira eftir sama höfund

Ellefu mínútur

Lesa meira

Veronika ákveður að deyja

Lesa meira