Beint í efni

Allt eða ekkert

Allt eða ekkert
Höfundur
Nicola Yoon
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2016
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um Allt eða ekkert

Everything, Everything eftir Nicola Yoon, í íslenskri þýðingu Ingunnar.

Madeline hefur ekki farið út fyrir hússins dyr í sautján ár af því að hún er með ofnæmi fyrir heiminum. Hún hittir engan nema móður sína og hjúkrunarfræðing.

Dag einn flytur strákur í næsta hús og þegar þau fara að skiptast á póstum verða þau bálskotin hvort í öðru. Og nú er hið einangraða líf ekki lengur nóg fyrir Madeline – en þá þarf hún líka að taka gríðarlega áhættu.

Úr Allt eða ekkert

Og það er þráin sem kippir mér harkalega niður á jörðina aftur. Ég skelfist hana. Hún er eins og illgresi sem dreifir hægt úr sér án þess að maður taki eftir því. Áður en maður veit af hefur það grafið undan fótum manns og byrgt fyrir alia glugga.

Ég sendi Olly ein einustu skilaboð. Ég hef rosalega mikið að gera um helgina, segi ég. Ég þarf að hvíla mig, segi ég. Ég þarf að einbeita mér, segi ég. Ég loka tölvunni minni, tek hana úr sambandi og gref hana undir bókastafla. Carla lítur spyrjandi á mig. Ég horfi á hana með mínum besta pókersvip.

Ég eyði mestu af laugardeginum í að pína mig í gegnum stærðfræðina. Fagið sem mér finnst leiðinlegast og ég er lélegust í. Það má vera að þetta tvennt tengist. Um kvöldið byrja ég að endurlesa Lísu í Undralandi, myndskreyttu útgáfuna með skýringum. Ég tek varla eftir því þegar Carla fer að gera sig klára í heimferð.

„Voruð þið að rífast?“ spyr hún og kinkar kolli í áttina að tölvunni minni.

Ég hristi höfuðið en segi ekkert.

Þegar kemur fram á sunnudag er þörfin fyrir að kíkja á tölvupóstinn minn að verða óbærileg. Ég ímynda mér að innhólfið sé yfirfullt af skilaboðum frá Olly, öll án titils. Fleiri fimm uppáhalds spurningar? Vill hann félagsskap, fá hvíld frá fjölskyldu sinni?

„Það verður allt í lagi með þig,“ segir Carla á leiðinni út þá um kvöldið. Hún kyssir mig á ennið og ég verð aftur lítil stelpa.

Ég fer með Lísu yfir í sófann og kem mér fyrir. Carla hefur að sjálfsögðu rétt fyrir sér. Það verður allt í lagi með mig, en ég er að reyna að rata réttu leiðina, eins og Lísa. Mér verður hugsað til sumarsins þegar ég var átta ára. Ég eyddi svo mörgum dögum með ennið upp við gluggann, brann upp af fánýtri þrá. Fyrst vildi ég bara horfa út. Svo langaði mig að fara út. Og svo langaði mig til að leika við nágrannabörnin, leika við öll börn alls staðar, vera eðlileg bara einn eftirmiðdag, einn dag, alltaf.

(87-8)

Fleira eftir sama höfund