Beint í efni

Allt til að vera hamingjusöm - og aðrar sögur

Allt til að vera hamingjusöm - og aðrar sögur
Höfundur
Eric-Emmanuel Schmitt
Útgefandi
Lafleur
Staður
Reykjavík
Ár
2010
Flokkur
Íslenskar þýðingar

fUm þýðinguna

Smásagnasafnið Odette Toulemonde et autres histoires eftir Eric-Emmanuel Schmitt, í íslenskri þýðingu Sigurðar.

Aðalpersónurnar í þessum sögum eru af ýmsum þjóðfélagsstigum; þarna er hversdagsleg afgreiðslukona í búð, harðsnúin milljarðamær, konur í fangelsi, dularfull berfætt prinsessa ... og þarna eru líka dularfullir eiginmenn og ástmenn.

Úr bókinni

Óboðinn gestur

Í þetta skipti hafði hún séð hana! Konan kom í ljós innst í stofunni, horfandi undrandi á hana og hvarf síðan inn í eldhúsið.

Odile Versini hikaði: átti hún að hlaupa á eftir henni eða flýja eins og fætur toga út úr íbúðinni?

Hver var þessi óboðni gestur? Þetta var í þriðja skipti, í það minnsta... Í fyrri skiptin hafði henni brugðið fyrir örskotsstund þannig að Odile hélt að þetta væri ímyndun en núna höfðu þær haft tíma til að koma auga hvor á aðra; hún var meira segja ekki frá því að hinni hafi brugðið og hún hafi grett sig af hræðslu áður en hún hvarf.

Án þess að velta þessu frekar fyrir sér hélt Odile af stað og hrópaði á eftir henni:

- Stoppaðu! Ég sá þig! Það er ekki til neins að fela sig, þú kemst ekkert út þarna megin.

Odile æddi inn í hvert herbergið af öðru, svefnherbergið, eldhúsið, klósettið, baðið: enginn.

Þá var ekki eftir nema fataskápurinn fyrir endanum á ganginum.

- Komdu út! Komdu út eða ég hringi á lögregluna.

Ekkert heyrðist innan úr fataskápnum.

- Hvað ertu að gera hér inni hjá mér? Hvernig komstu inn?

Þögnin var hnausþykk.

- Jæja, allt í lagi, ég er búin að vara þig við.

Skyndilega fann Odile fyrir ofsahræðslu, hvað vildi þessi óboðni gestur? Hún bakkaði titrandi fram í forstofuna, handsamaði símann og tókst á endanum að hafa númerið hjá lögreglunni rétt. Fljótir, fljótir, hugsaði hún, áður en hún kemur æðandi út úr skápnum og ræðst á mig. Loksins var hún komin í gegnum skilaboðin um að bíða, loksins varaði starfsmaður lögreglunnar hljómmikilli röddu:

- Parísarlögreglan, sextánda hverfi, góðan dag.

- Komið til mín í hvelli. Það er kona sem hefur komist hérna inn til mín. Hún faldi sig í fataskápnum í ganginum og neitar að koma út. Fljótir. Ég grátbið ykkur, kannski er hún geðbiluð, kannski er þetta morðingi. Fljótir, ég er mjög hrædd.

Lögreglumaðurinn tók niður nafn og heimilisfang og fullvissaði hana um að þeir yrðu komnir innan við fimm mínútur.

- Halló, halló, ertu ennþá þarna?

- Mmm ...

- Hvernig líður þér, frú?

- ...

- Vertu þarna í símanum áfram, ekki leggja á. Svona já. Þá geturðu látið mig vita ef eitthvað gerist. Endurtaktu þetta upphátt sem ég var að segja þér, hátt og skýrt, þannig að manneskjan heyri það örugglega, þá veit hún að þú ert ekki hjálparlaus. Jæja, gerðu þetta. Núna.

(53-4)

Fleira eftir sama höfund

Óskar og bleikklædda konan

Lesa meira

Milarepa

Lesa meira

Hr. Ibrahim og blóm Kóransins

Lesa meira

Líf mitt með Mozart

Lesa meira