Beint í efni

Amma best

Amma best
Höfundur
Gunnar Helgason
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2017
Flokkur
Barnabækur

Af bókarkápu

Kæri lesandi,

Stella hér! Ef þú hefur lesið Mömmu klikk eða Pabba prófessor veistu hver ég er. En þú getur ekki ímyndað þér hvað gekk á vikurnar áður en ég fermdist. Það var svo rosalegt að ég varð að skrifa nýja bók. Ég vil ekki segja of mikið en hér kemur við sögu keppni upp á líf og dauða, líka sjálfur DAUÐINN (ég er EKKI að grínast) og loks amma Köben – amma best.

Góða skemmtun!

kveðja, Stella (sprelllifandi)

Úr bókinni

Palli stökk af stað.

Ég gleymdi öllu því sem ég hafði lent í um kvöldið og breyttist í smábarn. Ég rúllaði eins hratt og ég gat á eftir Palla sem var kominn í fangið á ömmu.

„Þarna er hún!“ hrópaði amma og sleppti Palla. Ef mig hafði vantað geðlyf þá var það komið. Amma Köben lét mig gleyma öllum leiðindum um leið og ég sá hana. Hún opnaði faðminn á móti mér og fór niður á hnén til að faðma mig. Ég faðmaði hana skellihlæjandi. Það var undursamlegur ilmur af henni. Framandi og djúpur. Margslunginn og marglaga. Svona ilmur sem maður vill ekki hætta að anda að sér fyrr en maður áttar sig á því úr hverju hann er gerður.

Amma sleppti mér og leit á mig.

„Herregud, hvað þú ert orðin fögur!“ tilkynnti hún alveg steinhissa. Hún var með grátt hárið í snúð sem tvö risastór, bleik fiðrildi héldu föstum en með lausa lokka hér og þar. Hún var í snjáðum gallajakka utan yfir köflótta skyrtu og í litríkum, röndóttum útvíðum bómullarbuxum. Um hálsinn hafði hún ótal hálsfestar úr einhverju sem virtist vera ull. Hún horfði á mig full aðdáunar. Ég horfði til baka. Hún var með alltof mikla málningu í kringum augun en annars var hún fáránlega lík mömmu. Eða mamma lík henni. „Svo ilmar þú svo mikið gott. Fórstu í bað fyrir ömmu sín?"

„Uuu ... já, einmitt,“ sagði ég feimnislega og roðnaði. Ég ætlaði ekki að fara að segja henni réttu ástæðuna fyrir því af hverju ég fór í bað. Hún virtist trúa mér því hún brosti ánægð. Svo leit hún á Palla og sagði:

„Og þú unge mand, þú ert nú bara hreinræktaður kvennaljómi, ha!"

Við Palli hlógum og ég sá að hann hafði líka breyst í leikskólabarn.

„Jasso, Erlingur, þú ert ekki svo slæmur til undaneldis eftir allt saman. Þetta var bara ágætis graðfoli sem þú fannst þér, Katrín mín,“ sagði amma og hló.

„Mamma!“ sagði mamma hneyksluð en hló svo hátt og brosti vandræðalega.

„Hallgerður!“ sagði pabbi hneykslaður og brosti ekki vandræðalega. Hann brosti ekki neitt. Amma lét sem hún hefði ekki heyrt í þeim.

„Nei! Og vem er det? Er þetta Siggi? Er þetta virkilega Siggi litli sætabrauð? Jedúddamía, hvað þú ert orðinn stór!“ sagði amma og við litum öll á Sigga sem stóð nývaknaður (enn og aftur) við eldhúsdyrnar. Hann var feiminn og hikandi sem var skiljanlegt því hann þekkti ömmu mjög lítið og minnst af okkur krökkunum. Amma gekk hratt til hans, faðmaði hann fast að sér og lyfti honum um leið og hún kyssti hann aftur og aftur á kinnina. Siggi skríkti af hlátri.

Þegar amma setti hann niður sagði hann:

„Þú lyktar einþ og útlönd!"

Amma ruglaði í hárinu á honum og hló hátt.

„Þú ert búinn að læra að segja err!“ hrópaði hún upp yfir sig og opnaði munninn á Sigga til að kíkja upp í hann. „Og framtennurnar eru alveg að koma þannig að þú hættir bráðum að vera smámæltur líka, herregud, hvað þú ert að verða stór.“ Hún leit á mömmu með viðurkenningarsvip. Mamma brosti stolt á móti.

„Og Stella, jedúddamía hvað þú hefur stækkað, krakki!“ sagði amma og horfði á mig með hendur á mjöðm. „Það sem þú átt mikið falleg börn, Kata mín,“ sagði amma og brosti. Enginn sagði neitt í smástund. Amma starði bara til skiptis á okkur systkinin með aðdáun í svipnum. Við urðum mjög vandræðaleg.

„Jæja, mamma, viltu ekki fá einhverja hressingu? Þú hlýtur að vera sársvöng eftir ferðalagið, ha,“ sagði hún og leiddi ömmu inn í eldhús.

„Nei, ég er ekkert svöng en ég væri til í smá öl. Hvernig er það, Erlingur, áttu ekki bjór handa tengdamömmu þinni?“ sagði amma og strauk pabba vinalega um kinnina.

„Mamma!“ sagði mamma og brosti. Hún vildi samt

greinilega ekki að amma fengi sér bjór.

„Ha, nei, ég á nú engan bjór en það gæti svo sem verið til púrtvín eða sjerrí frá jólunum,“ sagði pabbi hugsi og fór að leita í eldhússkápunum. „Eða vínið þarna sem ég notaði til að kveikja í eftirréttinum með ... já og tengdó!“ bætti hann við.

„Nei, sleppum því,“ sagði amma. „Ég drekk þá bara minn eigin bjór. Stella mín, stökktu fram og náðu í fríhafnarpokann sem ég kom með,“ bætti hún við.

„Já!“ sagði ég óeðlilega hátt.

„Ég skal,“ hrópaði Siggi og hljóp af stað.

(29-31)

 

Fleira eftir sama höfund

Aukaspyrna á Akureyri

Lesa meira

Pabbi prófessor

Lesa meira

Víti í Vestmanneyjum

Lesa meira

Rangstæður í Reykjavík

Lesa meira

Nornin og dularfulla gauksklukkan

Lesa meira

Mamma klikk!

Lesa meira

Gula spjaldið í Gautaborg

Lesa meira

Goggi og Grjóni: vel í sveit settir

Lesa meira