Beint í efni

Árið sem tvær sekúndur bættust við tímann

Árið sem tvær sekúndur bættust við tímann
Höfundur
Rachel Joyce
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2013
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um þýðinguna

Skáldsagan Perfect eftir Rachel Joyce í íslenskri þýðingu Ingunnar.

Árið 1972 var tveimur sekúndum bætt við tímann til að hann stemmdi við hreyfingar jarðarinnar. Byron Hemmings vissi þetta því að James Lowe hafði sagt honum það og James var gáfaðasti drengurinn í skólanum. En hvernig var hægt að breyta tímanum? Hreyfingar klukkuvísanna voru eins óumbreytanlegar og gulltrygg framtíð drengjanna tveggja.

En svo gerir móðir Byrons afdrifarík mistök þegar hún er að flýta sér með börnin í skólann. Fullkomin tilvera Byrons hrynur til grunna. Er það sekúndunum tveimur að kenna? Verður einhvern tíma hægt að leiðrétta það sem fór úrskeiðis?

Úr bókinni

Jim úðar á borðið við gluggann. Einu sinni. Tvisvar. Hann þurrkar af því. Einu sinni. Tvisvar. Hann er með sína eigin flösku af fjölnota sótthreinsandi spreyi og líka með bláan afþurrkunarklút.

Desemberhiminninn er þrunginn af snjó sem þráast við að falla. Kannski verða þetta hvít jól. Það yrði frábært að fá snjó í fyrsta skipti í húsbílnum. Viðskiptavinir skjótast yfir bílastæðið með endurvinnanlega poka og lítil börn, líkamar þeirra herptir saman gegn kuldanum eins og loftið sé mengað af pipar. Sumir eru með jólatrefla og hatta og ein lítil stúlka er með hreindýrshorn sem síga stöðugt út á hlið. Handan við allt þetta teygja fjallstindar Cranham-heiðarinnar sig til himins. Beitilyngið, burknagróðurinn og brönugrösin sem glóðu í grænum og gulum, bleikum og fjólubláum litum, allt þetta hafa kuldaklærnar hremmt og litað brúnt. Í fjarska sér hann móta fyrir Besley Hill og byggingarkrönunum sem umkringja staðinn. Því er fleygt að þarna verði byggð fimmtán fimm stjörnu lúxusheimili. Síðan Cranham-þorp reis hefur hver nýja byggingarframkvæmdin rekið aðra á heiðinni. Byggingar spretta úr jörðinni eins og nýuppgrafin bein.

„Hefur þú ekkert að gera?“ segir herra Meade skyndilega fyrir aftan hann. Hann er smávaxinn maður með snyrtilegt yfirskegg, sem ekur um með sínar eigin umferðarkeilur í skottinu ef kæmi til óhapps.

„Ég er að sp-sp-“

Herra Meade grípur fram í. Það gera það allir. Það vill enginn sjá mann stama svo ákaft að orðin engjast næstum um af sársauka. „Og meðan ég man, Jim, hatturinn þinn er skakkur.“

Hatturinn hans Jims er skakkur vegna þess að hann er of lítill. Þetta er tæknilega séð ekki hattur, að minnsta kosti ekki alvöruhattur. Hann er appelsínugulur, eins og starfsmannabolurinn hans, svuntan hans og starfsmannasokkarnir, og hann er búinn til úr plasti og í laginu eins og venjulegur flókahattur. Eini starfsmaðurinn sem er ekki með hatt er herra Meade, af því að hann er framkvæmdastjórinn. Það er jú ekki hægt að búast við að konungsfjölskyldan veifi fánum eða hengi upp borða, það eru allir hinir sem eiga að líta þjóðræknislega út henni til heiðurs.

Jim lagar hattinn sinn og herra Meade fer til að afgreiða kvenkyns viðskiptavin. Nýi kokkurinn er aftur orðinn seinn.

(49-50)

Fleira eftir sama höfund

Hin ótrúlega pílagrímsganga Harolds Fry

Lesa meira