Beint í efni

Aþena (ekki höfuðborgin í Grikklandi ;)

Aþena (ekki höfuðborgin í Grikklandi ;)
Höfundur
Margrét Örnólfsdóttir
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2009
Flokkur
Unglingabækur

Af bókarkápu:

Það er komið sumar og Aþena sér fyrir sér endalausa letidaga og skemmtilegheit. En þegar besta vinkona hennar ræður sig í barnapössun og besti vinur hennar er skyndilega farinn að vekja hjá henni óvæntar tilfinningar er komin upp ný staða. Þegar við bætast dularfull skilaboð frá ókunnugri manneskju sem vill hitta hana og boð á ættarmót hjá ætt sem hún hefur aldrei heyrt nefnda er ljóst að þetta verður ekkert venjulegt sumarfrí.

Úr Aþena (ekki höfuðborgin í Grikklandi ;):

Við sitjum hljóð saman og lesum skilaboðin. Það er ekkert sérlega ógnvekjandi í þessu, en ég fæ á tilfinninguna að þessi manneskja haldi að hún sé að tala við einhvern allt annan. Einhvern sem hún þekkir, og það getur ekki verið ég.

Botnarðu eitthvað í þessu? spyr Starki um leið og hann opnar skilaboð númer tvö. Þau hljóma svona:

Þessi Facebook er fraebaer! Eg er komin med 79 friends from all over the world. Se ad thu att 147, well done!

Pirringurinn gýs upp í mér.

Hver heldur þessi manneskja að ég sé eiginlega? Og hvaða íslensku-ensku rugl er þetta?

Kannski er hún útlensk, stingur Starki upp á. Allavega býr hún í útlöndum.

Hvernig veistu? spyr ég, hissa á því hvað hann virðist viss.

Hún notar ekki íslenska stafi, þá er hún ekki með íslenskt lyklaborð.

Auðvitað hefði ég átt að átta mig á því sjálf. Ég leita í huganum að einhverjum sem ég þekki í útlöndum. Kannski einhver gamall skólafélagi sem flutti til útlanda? Ég man ekki eftir neinum nema einum strák sem flutti til Hollands þegar við vorum í 3. bekk en ég man ekki einu sinni hvað hann heitir og finnst ekki líklegt að hann hafi síðan tekið upp nafnið Rose Bond. Forvitin opna ég síðustu skilaboðin.

Kem til Islands June 13th. Langar að hitta thig ...

Ég finn ónotatilfinninguna aftur. Svona gerist þetta víst. Glæpamennirnir taka sér góðan tíma í að vinna traust krakka á netinu og svo þegar þeir eru orðnir öruggir stinga þeir upp á stefnumóti. Glætan að ég falli fyrir þessu! En skilaboðin eru lengri og þegar ég klára trúi ég ekki mínum eigin eyrum.

Verd a Hotel Holt, hafdu samband ef thu vilt. Amma Rosy.

(s. 47-48)


Fleira eftir sama höfund

Með heiminn í vasanum

Lesa meira

Aþena: Hvað er málið með Haítí?

Lesa meira

Regína

Lesa meira

Réttur, þáttaröð 1 og 2

Lesa meira

Galdrabókin

Lesa meira

Aþena – að eilífu, kúmen!

Lesa meira

Mánasöngvarinn

Lesa meira

Leikið lausum hala : sögu- og litabók : sagan um það þegar Prentvillupúkinn laumaði sér inn í Prentsmiðjuna Odda

Lesa meira