Beint í efni

Auður

Auður
Höfundur
Vilborg Davíðsdóttir
Útgefandi
Óskráð
Staður
Reykjavík
Ár
2009
Flokkur
Skáldsögur
Af bókarkápu:

Auður, dóttir víkingahöfðingjans Ketils flatnefs, vex upp á Suðureyjum, ættstór og skapheit. Allt hennar fólk er heiðið en þegar hún kynnist Gilla munki laðast hún bæði að honum og boðskap hans um Hvítakrist. Fullveðja er Auður gefin Ólafi hvíta, konungi yfir Dyflinni á Írlandi. Samband þeirra er heitt en stormasamt og vináttan við Gilla verður henni að lokum dýrkeypt...

Auður djúpúðga er í hópi þekktustu landnema Íslands, en hingað til lands kom hún ekki fyrr en á efri árum. Hér er þroskasaga hennar sögð um leið og dregin er upp mynd af þeim róstusömu tímum þegar norrænir menn lögðu undir sig eyjarnar við Skotland og herjuðu í Vesturhafi, háðu jafnvel blóðuga bardaga innbyrðis.

Úr Auði:

Að henni ryðjast alls kyns hugsanir, engin undankomuleið samt í sjónmáli nema sú ein að henni takist að telja föður sínum hughvarf og það er líkast til borin von, jafnvel þótt hún fengi móður sína í lið með sér. Þegar menn hafa handsalað festarmál verða þeir að standa við orð sín ef illdeilur og blóðhefndir eiga ekki að hljótast af. Það væri föður hennar þess utan líkt að hafa þegar innheimt digran silfursjóð upp í mundinn. Hún stynur þungan, úfin í skapi og horfir upp í himininn, skýjahulurnar eru teknar að lýsast og roðna, brátt víkur morgunljósið skammvinnri nóttinni á bug. Meðfædd bjartsýnin gerir hljóðlega vart við sig; hver veit hvað nýr dagur kann að bera í skauti sér? Morag gæti skjátlast, hún er ekki óbrigðul fremur en aðrir. Auður er enn með búrlykilinn í höndunum og ákveður að fara eftir skyrinu, einhverjar kyrnur eru alltaf tiltækar í búrinu.
Á leiðinni til baka tekur hún eftir því að dyrnar að hofinu vestan við skálann standa opnar og þó er kyrrt í veðri svo varla hafa þær feykst upp af sjálfu sér, fyrir hurðinni á aukin heldur að vera þung hespa. Hún hikar, hefur ekki gert upp við sig hvort hún eigi að ráðast í að gá hvað veldur þegar þrællinn Rauður, sem hún fitaði með matgjöfum sumarlangt í bernsku, kemur út úr myrkri gáttinni, litast snöggt um án þess þó að sjá hana þar sem hún stendur næst undir veggnum með skyrdallinn í höndunum. Hann snýst á hæli og lokar á eftir sér, baukar eitthvað við hurðina, eflaust að koma hespunni fyrir. Auður tvístígur, á hún að segja til sín og krefja hann svara um ferðir sínar eða láta sem hún hafi ekki tekið eftir honum og hraða sér inn í skála? Áður en henni gefst ráðrúm til að ákveða sig er hann á leið niður þrepin og kemur auga á hana, nemur þó ekki staðar heldur greikkar sporið og gengur til hennar, alls ekki flóttalegur, samt veit hún ekki hvað hún á að lesa út tillitinu, kannski trúnaðartraust. Hann heldur á klésteinsgolu í annarri hendinni, kveikurinn brunninn og lýsið uppurið.

(s. 56-57)

Fleira eftir sama höfund

Vígroði

Lesa meira

On the Cold Coasts

Lesa meira

Korku saga

Lesa meira

Die Winterfrau

Lesa meira

Eldfórnin

Lesa meira

Undir Yggdrasil

Lesa meira

Korku saga

Lesa meira

Felustaðurinn

Lesa meira