Beint í efni

B 10

B 10
Höfundur
Yrsa Sigurðardóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2001
Flokkur
Barnabækur

Úr B 10:

Þú skalt ekki bera ljúgvitni

Hvellurinn sem heyrist þegar styttan skellur i gólfið og brotnar í þúsund mola er óhugnanlegur. Mér finnst hann bergmála lengi í höfðinu á mér eftir að skaðinn er skeður og kastast heilahvolfa á milli. Ekkert okkar dregur andann og það er ekki fyrr en: „Ó, Guð minn góður, ó, Guð minn góður“ er farið að yfirgnæfa bergmálið af skellinum að ég opna munninn og garga.

 „Þið brutuð Braga!“ öskra ég. „Pabbi drepur mig. Hann drepur mig og kastar líkinu á grillið. Hvað á ég að gera? Hvað á ég að gera?“

 „Þú getur byrjað á því að hætta að endurtaka allt sem þú segir,“ muldrar Bríet öskugrá í framan. „Það er ekki bara þú sem ert í vandræðum. Pabbi á líka eftir að drepa mig og setja mig í brauðristina því það verður ekki pláss á grillinu fyrir þér.“

 „Hættið þessu,“ segir Sonja skjálfrödduð. „Við hljótum að geta lagað þetta einhvern veginn. Er það ekki?“

 Við lítum öll niðurlút á styttubrotin. Það eina sem er heillegt er fremsti hluti golfkylfunnar og eyrun af Braga sem liggja hvort sínum megin við hrúgaldið. Og svo hefur skjöldurinn sloppið. Hitt er hálfgerður mulningur. Það er varla til það lím sem gæti lagað þetta, hvað þá nokkur nógu flinkur púslari til að koma þessu saman.

 „Nei,“ segir Bogi stutt og laggott. „Þessi stytta gæti ekki verið ónýtari nema ef vera skyldi að við tröðkuðum ofan á eyrunum.“

 „Þú vogar þér ekki,“ hrópa ég skelfd. „Það er það eina af Braga sem eftir er. Getum við ekki límt þau á spýtu og sagt pabba að þetta sé nútímalistaverk?“

 „Er pabbi þinn eitthvað illa gefinn?“ spyr Hannes af einlægni.
 „Nei,“ svarar Sonja fyrir mig. „Hann er það ekki og myndi aldrei trúa því, Hallgerður. Verður þú ekki bara að segja honum sannleikann? Eg meina, mamma segir alltaf að það sé betra að segja satt því annars verði hún og pabbi enn reiðari þegar þau komast að því að maður hafi gert einhvern óskunda og logið í þokkabót.“

 „Þau eru að plata þegar þau segja það,“ skýtur Lúlli inní. „Þegar ég braut gluggann í stofunni laug ég og sagði að póstkonan hefði brotið hann. Þau urðu brjáluð þegar þau spurðu hana og komust að því að ég hefði logið að þeim. Svo braut ég gluggann óvart aftur nokkrum dögum seinna og sagði þeim strax frá því og þau urðu jafnvel enn reiðari.“ Lúlli hefur aldrei þessu vant, lög að mæla. Foreldrar eru klikk, segja eitt og gera annað. Pabbi er engin undantekning frá þeirri reglu.

 „Ég er með hugmynd,“ segir Bogi og bendir á hrúguna. „Byrjum á því að setja þetta allt í kassann aftur og loka honum. Þá getur Hallgerður ákveðið seinna hvort hún vill segja pabba sínum satt eða ekki. Hvað finnst ykkur?“

 Frábær hugmynd í anda einkunnarorðanna „illu er best skotið á frest.“

(s. 38-39)

Fleira eftir sama höfund

Brakið

Lesa meira

Ég man þig

Lesa meira

Ultimes rituels

Lesa meira

Brakið

Lesa meira

Ég man þig

Lesa meira

Þar lágu Danir í því

Lesa meira

Kolmas Märk

Lesa meira

Cinza e Poeira

Lesa meira