Beint í efni

Barist í Barcelona

Barist í Barcelona
Höfundur
Gunnar Helgason
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2019
Flokkur
Barnabækur

Um bókina

Vinirnir úr Þrótti – Jón, Ívar og Skúli – eru komnir í fótboltaakademíu FC Barcelona. Markmiðin eru skýr: Fá tilboð um að vera áfram með liðinu eða komast á samning hjá öðru stórliði. Ekki spillir að Rósa er í Barcelona á sama tíma að keppa með U16 landsliðinu.

Lífið gæti ekki verið betra – ja, ef ekki væri fyrir þennan dularfulla Katalóna og leyndarmálið sem Jón þarf að burðast með.

FÓTBOLTASAGAN MIKLA … SNÝR AFTUR!

Barist í Barcelona er sjálfstætt framhald Fótboltasögunnar miklu eftir metsöluhöfundinn Gunnar Helgason. Fyrri bækurnar, Víti í Vestmannaeyjum, Aukaspyrna á Akureyri, Rangstæður í Reykjavík og Gula spjaldið í Gautaborg, hlutu allar frábærar viðtökur og eftir þeirri fyrstu var gerð vinsæl kvikmynd og sjónvarpsþættir.

Úr bókinni

Þessi kafli heitir samningur.
  Þetta er svo stuttur kafli að hann ætti eiginlega ekki að fá að vera einn og með sitt eigið kaflaheiti.
  En hann er ótrúlega mikilvægur. Kannski bara aðalkaflinn.
  Okkur strákana hafði dreymt um að fá umboðsmann eða samning við evrópskt stórlið í þessari ferð. Það klikkaði í fyrra en nú vorum við árinu eldri og höfðum æft tiki-taka-Barcelona-bolta allan veturinn. Þó að það hefði nú ekki sést á frammistöðu minni á fyrstu æfingunni.
  Og talandi um drauma.
  Mig hafði ekki dreymt neitt fyrir þessa ferð. Sem var fáránlegur léttir. Mig hafði alltaf dreymt eitthvert rugl. Sem var fyrir einhverju rugli. Einhverju veseni. Eins og að fólk myndi deyja. Eða verða skotið í öxlina. En nú hafði mig ekki dreymt neitt svoleiðis í heil tvö ár.
  Síðast dreymdi mig á spítalanum, fyrir rúmu ári síðan. Þá dreymdi mig mömmu Ívars nokkrum sinnum en þeir draumar voru allir eins: Hún var bara glöð og ánægð að þakka fyrir sig. Þakka fyrir Ívar. Ókei, það var dálítið krípí, að dreyma dauða manneskju svona oft en hún var svo glöð í draumunum að mér leið ekkert illa yfir þeim. Eina nóttina hafði hún svo kvatt mig. Sagði bara bless og mig hafði ekki dreymt hana síðan. Ég skildi það þannig að hún væri sátt við að Ívar fengi að búa hjá pabba sínum. Hann flutti auðvitað ekki beint heim til hans heldur var til skiptis heima hjá Skúla og pabba sínum. Svo þegar Tóti var búinn að standa sig vel í marga mánuði fékk hann loksins Ívar alfarið til sín.
  Hvað um það. Þetta átti að vera stuttur kafli. Það er bara eitt sem mig langar að segja áður en við höldum áfram:
  Ég var ekkert æðislega hress eftir fyrstu æfinguna því hún hafði gengið ömurlega. Mér hafði að vísu gengið aðeins betur eftir því sem leið á hana en það var samt bara eins og ég gæti ekki gefið boltann beint á samherja. Nema það væri mjög langt á milli okkar. Mér hafði gengið sæmilega, já, eða bara mjög vel í einu æfingunni sem var með löngum sendingum. Þá gat ég hitt í litla kassann hans Jojos. Það var reyndar smá vesen með móttökuna hjá mér í löngu boltunum. Ég hafði vanið mig á að taka á móti háum boltum utanfótar en Palli Mórall vildi ekki hafa það. Sagði að ég ætti að taka á móti háum boltum innanfótar. Það tók tíma að venjast því en ég er ekki frá því að það sé betra. Það hlýtur náttúrulega að vera betra fyrst aðalþjálfari Barcelona segir það.

(37-38)

 

 

Fleira eftir sama höfund

Aukaspyrna á Akureyri

Lesa meira

Pabbi prófessor

Lesa meira

Víti í Vestmanneyjum

Lesa meira

Rangstæður í Reykjavík

Lesa meira

Nornin og dularfulla gauksklukkan

Lesa meira

Mamma klikk!

Lesa meira

Gula spjaldið í Gautaborg

Lesa meira

Goggi og Grjóni: vel í sveit settir

Lesa meira