Beint í efni

Bátur með segli og allt

Bátur með segli og allt
Höfundur
Gerður Kristný
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2004
Flokkur
Skáldsögur

Gerður Kristný hlaut bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness 2004 fyrir skáldsöguna Bátur með segli og allt.

Skáldsagan fjallar um Oddfríði sem er óráðin stúlka á þrítugsaldri og stendur á krossgötum þegar hún fær tækifæri til að gerast blaðamaður. Ritstjóri dagblaðs vill fá hana til að ráða sig hjá samkeppnisaðilanum og komast að hvað þar er í gangi. Oddfríður slær til en uppgötvar að hún er ekki ein um að leika tveimur skjöldum Skyndilega er hún komin í þær aðstæður að hún hefur engan til að treysta á nema sjálfa sig og eigið hyggjuvit til þess að fleyta sér í gegnum boðaföllin.

Í umsögn dómnefndar um verðlaunahandritið segir meðal annars: Bátur með segli og allt er bráðskemmtileg og spennandi saga um efni sem snertir kviku okkar allra. Á meistaralegan hátt er skyggnst inn í líf ungrar konu sem lifað hefur í tilfinningalegri útlegð frá sínum nánustu og frá fyrstu tíð vanist því að engum sé að treysta - allra síst fjölskyldunni. Af fádæma öryggi er dregin upp mynd af sorg og einsemd þess sem svíkur vegna þess að honum finnst hann hafa verið svikinn.

Úr Bátur með segli og allt:

 Ég hafði hugsað mér að þú sæir svona um unga fólkið. Ferðu ekki svolítið út á lífið?
 Þetta var hvorki staður né stund til að neita því og ég kinkaði kolli. Græni bolurinn minn hlaut að hafa sannfært hann. Af honum stafaði fjörleg diskóstemning.
 Á hvaða staði ferðu?
 Bara alla. Það er eiginlega sama hvar sprettur upp búlla, ég er þar, sagði ég og vonaði að maðurinn héldi að ástæðan fyrir því að ég lá ekki í Þjóðarbókhlöðunni um helgina og ljósritaði snilldina í Vikuskammtinum væri sú að ég hefði verið að flengjast á milli skemmtistaða fram undir hádegi.
 Gott, taktu viðtöl við fólkið sem sækir staðina. Skrifaðu um það hvaða týpa sækir hvern stað. Við þurfum að auka lestur hjá ungu fólki, sér í lagi ungum konum. Síðan geturðu tekið við sjónvarpsdagskránni af honum Tómasi. Hann sýnir þér hvernig þetta er gert og getur þá snúið sér að íþróttunum. Það er alltaf einhver kverúlantinn að hringja hingað inn og láta vita að við séum með úrsérgengnar íþróttafréttir. Eru þá allir komnir með verkefni?
 Hringurinn leystist upp og Steini hrifsaði undan mér stólinn á sama sekúndubroti og ég spennti lærvöðvana til að lyfta mér upp af honum. Ef þetta voru ekki handboltatilþrif var ég illa svikin.
 Sýndu stelpunni hvar hún á að sitja, sagði Jóhann við Steina og hann vísaði mér þungbúinn á svip að borði úti við glugga í salnum. Ég reyndi að komast hjá því að traðka á dagblöðunum sem virtist hafa verið stráð af handahófi yfir gólfin.
 Kanntu ekki á pésé? spurði Steini, kveikti á tölvunni og þeytti toppinum frá andlitinu.
 Jú, ég nota pésé heima, svaraði ég.
 Passvördið er sexmaskine, svona eins og í dönsku, sagði hann og endurtók dönskukunnáttuna nokkrum sinnum með ýktum hreim. Ætli ég hafi virst nógu glaðleg þegar hann sagði það í fyrsta skiptið? Drengurinn Steini bætti við: Júllu hefur fundist þetta fyndið. Kannski vegna þess að maður getur bæði hamrað á tölvu og síðan getur maður líka hamrað kærustuna eða kærastann. Kannski Júlla hafi verið að hugsa um það þegar hún setti passvördið inn.
 Já, það er magnað að ná slíkum tökum á tungumálinu, sagði ég og hlustaði á sóninn í símanum til að athuga hvort hann virkaði ekki örugglega.

(s. 86-88)

Fleira eftir sama höfund

Ljóð í Moord liederen

Lesa meira

Forsetinn, prinsessan og höllin sem svaf

Lesa meira

Prinsessan á Bessastöðum

Lesa meira

Ballið á Bessastöðum

Lesa meira

Kirkegården

Lesa meira

Strandir

Lesa meira

Die letzte Nacht des Jahres

Lesa meira
urta

Urta

Urta segir í fáum orðum sögu af harðri lífsbaráttu á hjara veraldar.
Lesa meira