Beint í efni

Borg bróður míns

Borg bróður míns
Höfundur
Kristín Ómarsdóttir
Útgefandi
Benedikt
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Smásögur

Um bókina

„Ef þú prjónar mér peysu með þverlöngum gulum röndum (eða röddum) undir rauðum stjörnum (eða tjörn) á ljósbláum himni lofa ég að fara ekki svona mikið út á kvöldin ...“

Þessa setningu er ekki að finna hér, hún hangir bara í loftinu, einsog orðin sem voru tínd ofaní þessa bók - á meðan heimar lágu í kófi? Hér er safn sagna - skyndimynda - skjáskota - brota - sem K (skrifaði og) safnaði saman.

Staðsetning: nálægt borg, borg í fjarska, hvergi.

Tími: núna?

úr bókinni

Nafn mitt er Össur. Á skólaárunum beið ég af mér hina, alltaf kom síðast að mér. Á erfiðum stundum huggaði ég mig við orð Krists: Hinir síðustu verða fyrstir. Senn rætast orðin. Ég hef aldrei bragðað kampavín eða freyðivín. Nágranni minn, fröken Snæfríður Albertsdóttir, býr í íbúð númer 18 d, mín er númer 17-d, d-íbúðirnar tilheyra kjöllurunum. Um daginn flokkaði hún dósir og flöskur í poka hjá öskutunnunum undir grindverkinu. Ég benti á græna flösku uppi á tunnunni.

"Já, þetta er kampavín, nei annars," hún skoðaði flöskuna, "þetta er freyðivín, vinkona mín gaf mér flöskuna í afmælisgjöf."

Í samræðum okkar hjá tunnunum minnist Snæfríður alltaf á vinkonur, nöfn fylgja ekki en af samhenginu læri ég að þær eru margar. Fljótlega eftir flutningana skildi ég að í orðinu fælust þessi skilaboð: ekki reyna við mig, herra Össur, sætið er lofað. Mér kom aldrei til hugar að reyna við Snæfríði enda er fullbókað og fullskipað í öll sæti heima hjá mér þótt ég búin einn og fái enga heimsókn.

"Vinkona mín hefur ekki efni á kampavíni," hélt hún áfram, "þetta var mjög gott freyðivín, alveg jafn gott og kampavín."

"Eru kampavín og freyðivín í eins flöskum? Hver er munurinn?" spurði ég.

"Verðmunur," svaraði Snæfríður, "kampavín er sirka þrisvar sinnum dýrara en ódýrasta freyðivín. En það má kaupa mjög gott, ódýrt og organískt freyðivín. Ætli séu til organísk kampavín? Best ég spyrji vinkonu mína í kvöld, hún veit allt."

Hún henti flöskunni í ruslapoka svo glumdi í glerinu.

"Þetta var organískt - við vinkona mín drukkum það yfir fótboltaleiknum um daginn."

"Þú og vinkonan sem gaf þér flöskuna?"

Hnýsnin olli mér eftirsjá, vakti örugglega grunsemdir um viðreynslu.

"Nei, annarri," svaraði Snæfríður og flokkaði af meira kappi. Fyrir fótum hennar lágu stórir ruslapokar. Ég hélt á þríhjóli sem ég snéri við og lagði ofan á tunnu og gekk af stað, grasið hátt og rakt og rólegt viðkomu. Enginn nennir að slá. Mér þótti gott að blotna í fæturna, finna skálmarnar blotna, berfættur í fallegum sandölum sem bróðir minn hefði gefið mér, hefði ég átt bróður.

"Ætlarðu að henda þríhjólinu, Össur?" kallaði Snæfríður.

"Má ég hirða það og gefa syni vinkonu minnar?"

"Já."

Ég labbaði niður kjallaratröppurnar. Hún kastaði fullu fangi af dósum í grasið, greip þríhjólið og hristi - ég hafði skolað það í sturtunni - líkt og hún vildi kenna því að þurrka sér betur eftir sturtuna. Inni hjá mér hóf ég að leggja á ráðin. Ég skyldi verða mér út um kampavín með óheiðarlegri aðferð, helst kassa og ég skyldi drekka kampavín, flösku á eftir flösku, fara út og baula á nágrannana.

Ég nýt betur þess sem aflað er óheiðarlega en þess sem ég kaupi fyrir launin sem ég vinn mér inn með heiðarlegri atvinnu. Þeir síðustu verða fyrstir. Enginn veit hvað setningin þýðir fyrr en ég sting úr glasi síðustu flöskunnar.

(s. 95-97)

 


 

Fleira eftir sama höfund

Við tilheyrum sama myrkrinu – af vináttu: Marilyn Monroe og Greta Garbo

Lesa meira

Children in the Reindeer Woods

Lesa meira

Hjartatrompet

Lesa meira

Margrét mikla

Lesa meira

Smásögur

Lesa meira

Afmælistertan

Lesa meira

Margar konur

Lesa meira