Beint í efni

Borgir og eyðimerkur: Skáldsaga um Kristmann Guðmundsson

Borgir og eyðimerkur: Skáldsaga um Kristmann Guðmundsson
Höfundur
Sigurjón Magnússon
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2003
Flokkur
Skáldsögur

Úr Borgir og eyðimerkur:

Hingað austur, nei aldrei! Hann var ekki fyrr stiginn út úr leigubílnum efst í brekkunni, þar sem Reykjafjall blasir við í norðaustri, en hann vissi það fyrir víst. Út í þessa eyðimörk gat hann ekki flust. Það kom ekki til mála. Daginn sem það gerðist væri öllu lokið fyrir honum.
Þarna innan um rjúkandi hveragufurnar niðri á völlunum var fremur óburðug húsaþyrping sem hann hafði raunar séð nokkrum sinnum áður en aldrei fundist jafnlítið til um og einmitt núna. Nei, honum mundi aldrei lánast að búa sér framtíðarheimili á slíkum stað sem Hveragerði var. Flest sem stóð honum fyrir þrifum í höfuðborginni hlaut óhjákvæmilega að gera það líka undir þessum brattgengu hlíðum og hamrabeltum sem umluktu byggðina á þrjár hliðar; smæðin og þrengslin, skortur á víðsýni og nauðsynlegri fjölbreytni, hér varð allt þetta beinlínis sýnilegt með berum augum. En fyrst svona var komið, hvað í ósköpunum var þá til ráða fyrir hann? Voru það kannski örlög hans að setjast aftur að í fjarlægu landi? Hann hafði ungur hrakist til Noregs sökum fátæktar og þegar hann nú leitaði á ný til þjóðar sinnar þokkalega efnaður maður og efldur að orðstír þá hafði afskiptaleysið sem áður var snúist upp í andhverfu sína, öfund og fordóma, sem gerðu honum lífið enn óbærilegra en fyrr. Já, það benti vissulega ýmislegt til þess að honum yrði ekki langrar dvalar auðið á Íslandi að sinni. Hann horfði þó yfir byggðina drykklanga stund eins og hann vildi þannig fullvissa sig um að dómur sinn stæði óhaggaður. Og svo reyndist vera. Að vísu vissi hann að hér um slóðir væri fóstru hans ugglaust að finna – bæði hjá Hamrinum og í gilinu handan við þorpið þar sem áin streymdi til sjávar bærðist faldurinn hennar ljósi, það skynjaði hann strax. En það var honum ekki nóg. Hann hafði gengið spölkorn niður í slakkann en sneri nú við og fylgdi malarslóðanum til baka. Bifreiðin stóð utan vegarins og bílstjórinn las í dagblaði og gaf honum engan gaum. Það var farið að kula af norðri enda bráðum kvöldsett – sólin sigin svo langt til vesturs að heiðarbrúnin teygði skugga sinn niður á flatlendið, langleiðina að jaðri þorpsins. Hann hneppti að sér jakkanum og leit enn á ný svipsinnis yfir lágreist húsin áður en hann opnaði afturdyrnar, settist í hlýtt sætið og tjáði bílstjóranum að hann hygðist ekki gera hér lengri stans. Þeir skyldu láta gott heita og aka aftur til Reykjavíkur. Hann vildi vera kominn heim fyrir myrkur.

(s. 44-45)

Fleira eftir sama höfund

Góða nótt, Silja

Lesa meira

Hér hlustar aldrei neinn

Lesa meira

Endimörk heimsins: frásögn hugsjónamanns

Lesa meira

Gaddavír

Lesa meira

God natt, Silja

Lesa meira

Dauðavegir

Lesa meira

Morðingi um borð

Lesa meira

Sonnettan

Lesa meira

Útlagar

Lesa meira