Beint í efni

Brakið

Brakið
Höfundur
Yrsa Sigurðardóttir
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina:

Mannlaus snekkja siglir inn í Reykjavíkurhöfn. Sjö manns er saknað og Þóra Guðmundsdóttir lögmaður rannsakar hvaða óhugnalegu atburðir áttu sér stað um borð.

Úr bókinni:

Veturinn neitaði að lina tökin, vorið birtist stundum hluta úr degi en lét sig síðan hverfa jafnharðan aftur. Augnablikshlýindi gerðu ekki annað en að vekja falsvonir og minna menn á hvers væri að sakna. Þóra stóð nötrandi niðri við höfn og beið eftir fulltrúa skilanefndar bankans sem Ægir Margeirsson hafði unnið hjá. Þunn sumarkápan mátti sín lítils í norðanáttinni sem tókst af og til af aðdáunarverðri seiglu að bera með sér nokkra dropa úr hafinu, svo eftir sat óþægilega rammt saltbragð á vörum hennar.

„Af hverju er ég ekki búin að fara í klippingu?“ Hárið á Þóru var óvenjusítt og þyrlaðist reglulega upp í oftið og framan í hana. Það festist í varalitnum sem hún dauðsá nú eftir að hafa sett á sig áuðr en hún steig út úr bílnum.

„Hvað heldurðu að ég viti um það?“ Bella stóð við hlið hennar og virtist með óskiljanlegum hætti sleppa betur við vindinn en Þóra. Líkast til var mosagrænn hermannajakkinn úr þyngra efni en kápa Þóru og úttroðnir vasarnir gáfu líka góða ballest. Þá var hún svo snöggklippt að það hefði meira aðs egja reynst ómögulegt að hreyfa við hárinu með handafli. Eingöngu risastórt glingrið sem hékk í eyrunum bærðist í vindinum. „Hvenær kemur þessi karl eiginlega?“

„Bráðum.“ Þetta var verra en að ferðast með Sóleyju og Orra litla um landið. Hvað er langt eftir? Hún hefði aldrei átt að láta undan suðinu í Bellu um að fá að koma með.Hún var enn brjáluð út í ritarann út af ljósritunarvélinni og það jók bara á reiði hennar að Bellu gat ekki staðið meira á sama hvort hún væri fúl út í sig eða ekki. Reyndar hafði Þóra alls ekki látið undan út af suðinu heldur hafði Bragi meðeigandi hennar að stofunni sagt að Bella skyldi endilega fara með að skoða snekkjuna. Þora kunni honum litlar þakkir fyrir en vissi að hann var að hefna þess þegar hún sendi Bellu með honum í héraðsdóm fyrir tæpum mánuði. Þóra hafði þá nauðsynlega þurft að losna við ritarann úr móttökunni þar sem hún átti von á mikilvægum viðskiptavini og ekki dottið annað í hug en að biðja hana um að vera Braga innanhandar við málflutning. Samkvæmt honum hafði hún ekki lyft litlafingri honum til aðstoðar heldur látið ægja að sitja við hlið hans og stara ógnandi á dómarann og sækjandann til skiptis. Málið vannst raunar og taldi Bragi í hógværð sinni ljóst að það hefði verið vegna nærveru hennar, sagði að framvegis myndi hann ævinlega taka Bellu með sér þegar mikið lægi við í réttarsal. En aðeins þegar afar mikið lægi við.

„Það er eitthvað að þessum dalli. Vissirðu það?“ Bella spýtti í áttina að snekkjunni, Þóru til mikillar ógleði, en hitti ekki og slumman lenti í sjónum. Þar flaut hún smástund þar til hún leystist upp.

„Hvað meinarðu?“

„Þessi bátur er bara eitthvað skrýtinn. Ég las það á netinu. Maður á helst ekki að fara um borð.“ Bella var eflaust að vísa í grein sem Þóra hafði séð en eingöngu lesið með öðru auganu þar sem hún fjallaði um sögu snekkjunnar í miklum æsifréttastíl. Í fréttinni, ef frétt skyldi kalla, var ýjað að því að bölvun hvíldi á fleyinu. Átti hún að hafa dunið yfir þegar skipasmiður lenti í vinnuslysi með þeim afleiðingum að honum blæddi út yfir hola stálskelina. Í framhaldi af því jókst tíðni óhappa við smíði snekkjunnar, suðumaður missti hönd, verkstjóri brenndist illa og fleira í þeim dúr. Og eigandi skipasmíðastöðvarinnar hafði fyrirfarið sér rétt áður en snekkjan var sjósett. en ekki nóg með það, í jómfrúarferðinni féll einn af gestunum útbyrðist og drukknaði. Heimilda var ekki getið og Þóru sagði svo hugur að þetta væru í besta falli vafasamar frásagnir. Líkast til fólst í þeim sannleikskjarni sem síðan hafði öðlast sjálfstætt líf, fjöðrin orðið að fimm hænum.

(27-8)

Fleira eftir sama höfund

Ég man þig

Lesa meira

Ultimes rituels

Lesa meira

Brakið

Lesa meira

Ég man þig

Lesa meira

Þar lágu Danir í því

Lesa meira

Kolmas Märk

Lesa meira

Cinza e Poeira

Lesa meira