Beint í efni

Doddi – Bók sannleikans!

Doddi – Bók sannleikans!
Höfundar
Þórdís Gísladóttir,
 Hildur Knútsdóttir
Útgefandi
Bókabeitan
Staður
Reykjavík
Ár
2016
Flokkur
Barnabækur

Um bókina

Doddi – Bók sannleikans! er unglingabók eftir verðlaunahöfundana Hildi Knútsdóttur og Þórdísi Gísladóttur. Elín Elísabet Einarsdóttir myndskreytti.

Til lesenda þessarar bókar:

Það er flókið að finna almennilegar unglingabækur. Sumar eru of þykkar en aðrar of ævintýralegar eða gerast í fornöld. Þessi bók er ALLS EKKI þannig. Hún fjallar um líf mitt.

Ég er fjórtán ára og á mér aðallega tvö áhugamál; skordýr og kvenfólk. Besti vinur minn Pawel á sér líka tvö áhugamál; Evrópusambandið  og stærðfræði (ég veit!). Í þessari bók er sagt frá ýmsum æsandi viðburðum úr lífi mínu, við sögu koma meðal annars sólarlandaferð, hrekkjavökupartý, skordýr og þúsundfætlur, Tindertilraunir mömmu minnar, ólögleg viðskipti við glæpakvendi og fegursta stúlka Íslands.
– Doddi (tilvonandi heimsfrægur skordýrafræðingur).

Úr bókinni

Í gærkvöldi var mamma í jóga á kvöldmatartíma og fór eftir það beint á kóræfingu svo ég fékk mér bara heitt brauð með ananas og osti í kvöldmat. Á meðan ég borðaði las ég heilan helling á netinu um höggorma, slöngur og snáka. Ég hef nefnilega líka áhuga á ýmsum svoleiðis dýrum. Það er samt mjög erfitt á Íslandi því höggormar, snákar og slöngur búa ekki á þessari eyju. Í fyrsta lagi eru þessi dýr ekki til villt í náttúrunni, eins og í flestum öðrum löndum, og í öðru lagi eru þau líka bönnuð með lögum sem gæludýr. Sem er auðvitað algjört rugl! Það eru til hrikalega sætir og sniðugir snákar sem myndu gleðja mörg döpur íslensk börn ef einhverjar dýralöggur væru ekki með þessi leiðindi. Til dæmis kornsnákar sem eru rauðir með röndum og gera engum mein. Reyndar kannast frændi hans Pawels við svalan náunga sem á kornsnák. Sá maður heitir Jakob Múhameð og er mjög töff dídjei og gítarleikari og hann leyfði okkur Pawel einu sinni að skoða snákinn sinn heima hjá sér, en hann býr í bílskúr niðri í bæ. Hann verður samt alltaf að fela snákinn svo dýrahatararnir taki hann ekki af honum.

Eitt af því sem ég las á netinu var frétt um bóaslöngu sem heitir Ella og býr í dýragarðinum í Furuvík í Svíþjóð. Hún eignaðist fimmtíu og níu snákaunga á einum klukkutíma. Það finnst mér ekkert lítið geggjað! Ef ég fer aftur til Svíþjóðar ætla ég að fara í þennan dýragarð og skoða Ellu og snákabörnin. Ég er samt mjög fegin fyrir hönd Pawels að konur eignast aldrei fimmtíu og níu börn. Það væri skelfilegt ef hann myndi eignast fimmtíu og níu lítil systkini þegar mamma hans fer á fæðingardeildina. Annars er svolítið fyndið að Pawel sé að fara að eignast tvíburasystkini því þegar við vorum yngri spurði Ásdís kennari einu sinni hvernig orðið barn væri í fleirtölu og Pawel svaraði strax: Tvíburar.

(s. 59-60)

 

Fleira eftir sama höfund

Óvissustig

Lesa meira

Randalín, Mundi og afturgöngurnar

Lesa meira

Tilfinningarök

Lesa meira

Doddi – Ekkert rugl!

Lesa meira

Randalín og Mundi í Leynilundi

Lesa meira

Randalín og Mundi

Lesa meira

Leyndarmál annarra

Lesa meira

Mislæg gatnamót

Lesa meira