Beint í efni

Doddi – Ekkert rugl!

Doddi – Ekkert rugl!
Höfundar
Þórdís Gísladóttir,
 Hildur Knútsdóttir
Útgefandi
Bókabeitan
Staður
Reykjavík
Ár
2017
Flokkur
Barnabækur

Um bókina

Doddi – Ekkert rugl! er sjálfstætt framhald bókarinnar Doddi – Bók sannleikans! Þetta er bók um íslenska unglinga.

Munið þið eftir fyrri bókinni um mig?

Í þessari bók held ég áfram að fjalla um æsilegt líf mitt og vina minna. Til dæmis fjalla ég um:

Þegar hitastigið í sambandi okkar Huldu Rósar fór niður að frostmarki.
Áhyggjur mínar af sambandi mömmu við dularfullan útlending.
Árangur minn á sviði skordýrafræða og glæsilega framkomu í sjónvarpsþætti.
Þátttöku í brjóstabyltingu.
Þegar lögreglan handtók mig á Austurvelli.

Úr bókinni

Undanfarnar vikur eru búnar að vera mjög leiðinlegar og ég hef ekkert nennt að skrifa um líf mitt. Janúar og febrúar eru langsamlega ömurlegustu mánuðirnir á Íslandi. Þessa mánuði gerist eiginlega aldrei neitt skemmtilegt og það er dimmt og kalt og maður þarf að vinna alls konar mjög niðurdrepandi og tímafrek verkefni í skólanum. Það nýjasta sem kennararnir í 9. bekk fundu upp á er hópverkefni þar sem við eigum að velja okkur handbók eða fræðirit til að lesa og vera síðan með framsögu um það fyrir bekkinn. Við Pawel erum búnir að eyða mörgum dögum í að reyna að velja okkur bók því við ætlum að gera verkefnið saman. Gallinn er sá að margar fræðibækur eru mjög þykkar og óspennandi og Pawel harðneitaði að velja bók um skordýr. Við fundum enga almennilega bók á safninu í skólanum. Blómey bókasafnsfræðingur var búin að taka fram fræðibækur og þær voru alveg ævintýralega óspennandi, senilega voru einhverjir aðrir búnir að taka allar skemmtilegu bækurnar. Við nennum að minnsta kosti alls ekki að vera með framsögu um bók um sögu leiklistar, miðaldir í Svarfaðardal eða fæðingarsögur íslenskra kvenna. Þess vegna ákváðum við að fara á Borgarbókasafnið eftir skóla því þar er miklu fjölbreyttara úrval af bókum en í skólanum.
   Þegar við vorum búnir að fá okkur ískaffi með karamellusírópi í Kringlunni og tuða smá yfir að þurfa að finna fræðibók, auk þess sem við vorum ógeðslega blautir í lappirnar því það var svo mikið slabb á gangstéttunum, fórum við á bókasafnið. Við ráfuðum um safnið þangað til við lentum á hillu með allskonar fræðiritum. Pawel fann fljótlega bók sem honum leist rosalega vel á. Bókin hét Sjortarar - kynlíf fyrir önnum kafið fólk, eftir höfund sem heitir Tracey Cox. Ég varð smá spenntur fyrir þessari bók. Hún getur kannski nýst mér þegar ég er orðinn gríðarlega upptekinn skordýrafræðingur og búinn að eignast kærustu eða eiginkonu, þá má ég örugglega ekki vera að því að stunda mikið kynlíf með konunni vegna þess að ég varð alltaf á ferðalögum í heitum löndum að gera sjónvarpsþætti. Mér fannst samt ekkert svo spennandi tilhugsun að tala um bókina fyrir framan bekkinn.

(s. 44-46)

 

Fleira eftir sama höfund

randalín og mundi : dagar í desember

Randalín og Mundi : Dagar í desember

Vinirnir Randalín og Mundi lenda í miklum ævintýrum í jólamánuðinum, . gera góðverk og óvart skemmdarverk.
Lesa meira
alger steliþjófur

Alger steliþjófur!

- Hann tók litla dótið, sagði Irma Lóa allt í einu og var greinilega frekar æst. Hann er algjör frekja þessi karl.
Lesa meira

Randalín, Mundi og leyndarmálið

Lesa meira

Mislæg gatnamót

Lesa meira

Doddi – Bók sannleikans!

Lesa meira

Óvissustig

Lesa meira

Randalín, Mundi og afturgöngurnar

Lesa meira

Tilfinningarök

Lesa meira