Beint í efni

Don Kíkóti : um hugvitssama riddarann Don Kíkóta frá Mancha

Don Kíkóti : um hugvitssama riddarann Don Kíkóta frá Mancha
Höfundur
Miguel de Cervantes
Útgefandi
JPV
Staður
Reykjavík
Ár
2002
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um bókina

Miguel de Carvantes: El ingenioso hidalgo Don Quijote de la Mancha.

Endurskoðuð útgáfa á þýðingu Guðbergs frá '81-'84, í tveimur bindum. Útgefin 2002-3.

Sagan kom út í einu bindi, kiljuútgáfu, árið 2006.

Úr Don Kíkóti frá Mancha (endurútgáfa, fyrsti hluti, viii kafli)

Rétt í þessu komu þeir auga á þrjátíu eða fjörutíu vindmillur þarna á sléttunni. Um leið og don Kíkóti sá þær sagði hann við skjaldsveininn:

- Gæfan hagar málum okkar betur en hægt væri að hugsa sér, félagi Sansjó, því sjáðu hvar gnæfa ófreskir risar, þrjátíu eða þar um bil, sem ég ætla að berjast við og svipta alla lífinu. Hagur okkar fer hækkandi með herfangi þeirra enda er þetta réttlátt stríð og guði þóknanlegt að uppræta slíkt illgresi af ásjónu jarðar.

- Hvaða risa? spurði Sansjó Pansa.

- Þá sem þú sérð þarna með löngu handleggina, svaraði húsbóndinn. Sumir eru með næstum tveggja mílna faðm.

- Hafið nú gát á yðar náð, bað Sansjó. Þetta eru ekki risar heldur vindmyllur og það sem sýnist vera armar eru spaðar sem ganga fyrir vindi og snúa kvarnarsteininum.

- Það er auðheyrt að þú ert illa lesinn í ævintýrum, svaraði don Kíkóti. Þetta eru risar og feldu þig úti í móa og leggstu á bæn, ef þú ert smeykur, því ég ætla að eiga við þá harða en ójafna orrustu.

Að svo mæltu keyrði hann Rósinant sporum og hirti ekki um köll Sansjós, skjaldsveinsins, sem aðvaraði hann og sagði ekkert efamál að það væru myllur en ekki risar sem hann réðst gegn. En hann var svo viss í sinni sök að hann heyrði hvorki köll skjaldsveinsins né sá hvað þetta var, þótt hann væri kominn í návígi, heldur kallaði háum rómi:

- Hopið hvergi, gungur og illvættir, það er riddari einn síns liðs sem ræðst gegn yður.

Nú hreyfði örlítið vind og stóru spaðarnir fóru af stað. Don Kíkóti sá það og sagði:

- Einu gildir þótt þér skakið fleiri skanka en risinn Bríareo, þér skuluð undan láta.

Don Kíkóti hafði allt eitt atriði: Hann helgaði sig frúnni Dúlsíneu frá Toboso og bað hana að duga sér í nauð um leið og hann réðst fram, vel varinn af skildinum, með mundaða lensu á harða spretti á Rósinant og lagði til fyrstu myllunnar á vegi sínum. Lagið kom á spaðann, en vindurinn sneri honum svo hratt að lensan kurlaðist og spaðinn rykkti hestinum til sín ásamt með riddararanum sem veltist illa leikinn um völlinn. Sansjó Pansa ætlaði að verða til hjálpar og spretti hratt úr spori á asnanum, en þegar hann kom að sá hann að riddarinn gat sig hvergi hrært, slíkur var skellurinn sem hann fékk við fall Rósinants.

- Drottinn minn! sagði Sansjó Pansa. Bað ég ekki yðar náð að gæta sín, því þetta væru bara vindmyllur; sem enginn villist á nema sá sem hefur eitthvað svipað þeim í kollinum.

- Hægan, Sansjó góði, svaraði don Kíkóti. Ekkert breytist jafnört og allt sem varðar stríð, einkum þegar mig grunar, og það er víst, að hinn fjölvísi Freston, sem rændi mig herberginu og bókunum, hefur breytt risunum í myllur með það fyrir augum að svipta mig heiðri af sigrinum. Slík er óvild hans í minn garð, en fjölkynngin mun duga skammt gegn gæsku sverðs míns.

(s. 76-77)

Fleira eftir sama höfund

Króksi og Skerðir

Lesa meira

Don Kíkóti frá Mancha

Lesa meira