Beint í efni

Drepsvart hraun

Drepsvart hraun
Höfundur
Lilja Sigurðardóttir
Útgefandi
JPV útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Þegar Áróra fær þær fréttir að ókunnugt barn segist vera systir hennar endurfædd bregður henni illa þótt staðhæfingin sé fráleit. Hún hefur leitað systur sinnar án árangurs í þrjú ár en nú virðist þetta litla barn búa yfir nýrri vitneskju. Sama dag kemur lögreglumaðurinn Daníel heim og finnur kveðjubréf frá leigjanda sínum, dragdrottningunni Lady Gúgúlú, sem kveðst þurfa að fara úr landi í skyndi. Þetta hljómar einkennilega – og þegar ógnandi menn birtast í leit að drottningunni verður ljóst að eitthvað verulega undarlegt er á seyði.

Úr bókinni

„Skoðaðirðu skýrslurnar um hvarf Ísafoldar?” spurði hún úr forstofunni þar sem hún kraup og reimaði á sig skóna. 
  „Já,” svaraði hann. „Og mér sýnist það rétt sem ég sagði í gær, að það vissi enginn utan lögreglunnar um dreifingu blóðleifanna í íbúðinni nema þið mamma þín. Þetta voru upplýsingar sem var ákveðið að birta ekki.” 
  „Og ég hef ekki rætt þetta við nokkra sál og ég efa stórlega að mamma hafi talað um það við nokkurn. Að minnsta kosti engan hér á landi,” sagði Áróra og Daníel kinkaði kolli. Hann var hugsi. Lýsingar ungu konunnar á átökunum í íbúðinni, sem hún sagðist hafa eftir barninu sínu, pössuðu fullkomlega við sönnunargögnin. 
  „Við þurfum að hitta þessa konu aftur,” sagði hann. „Kannski ég ætti að hitta hana einn og veifa lögguskírteininu og leggja dálítið að henni að segja satt.” Hann sá að Áróra hrökk lítillega við. Og svo kom á hana svipur sem hann þekkti alltof vel. Varnarsvipurinn. Undanfari þess að hún drægi sig í hlé. Bakkaði frá honum. Yrði fjarlæg. Hann flýtti sér því að bæta við: „En þú stýrir þessu auðvitað. Þú lætur mig vita hvernig þú vilt tækla þetta.” Hún virtist verða fegin. 
  „Tölum saman seinna í dag,” sagði hún, sendi honum fingurkoss og hvarf út um dyrnar. Hann fann sitt venjulega fát hreiðra um sig í brjóstinu. Óttann um að hún myndi yfirgefa hann. Það þurfti ekki einu sinni rifrildi til, það var nóg að hún setti upp þennan fjarlæga svip og þá fór hjartað að berjast í brjósti hans. Núna langaði hann mest að hringja í hana strax, ítreka að hann myndi ekki gera neitt varðandi mál systur hennar eða þessa dularfullu konu án samráðs við hana og hlusta eftir því hvað Áróra var að hugsa. Hlusta eftir tóninum í röddinni. Orðalaginu. 
  Hann var því feginn þegar dyrabjallan hringdi og hann stökk til dyra og ætlaði að opna fyrir Áróru. Hún væri örugglega komin til baka til að ræða þetta betur og hefði gleymt lyklinum sínum. En það var ekki Áróra sem stóð fyrir utan, heldur þrír ókunnugir menn. Sá sem fremstur þeirra stóð setti lófann á bringu Daníels og ýtti honum aftur á bak inn í íbúðina. Hinir tveir fylgdu á eftir. 
  „Við þurfum að ræða við þig um Róbert Þór Gíslason,” sagði sá aftasti um leið og hann lokaði dyrunum á eftir sér. 

(bls. 44-46) 

 

Fleira eftir sama höfund

Betrayal

Lesa meira

Fyrirgefning

Lesa meira

Pulapka

Lesa meira

Le filet

Lesa meira

Piégée

Lesa meira