Beint í efni

Dulmál Katharinu

Dulmál Katharinu
Höfundar
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Höfundur er Jørn Lier Horst. Í íslenskri þýðingu Ingunnar Snædal.

Um bókina

Katharina Haugen hvarf fyrir 24 árum. Hið eina sem hún skildi eftir sig var eiginmaðurinn Martin og undarleg talnaruna á blaðsnifsi. 

Hinn 9. október ár hvert tekur William Wisting lögregluforingi fram gögnin í þessu máli sem hann gat ekki leyst. Starir á talnakóðann sem hann fékk aldrei botn í. Og heimsækir eiginmanninn sem hann gat ekki hjálpað. Þetta ár er öðruvísi. Nú er önnur kona horfin. Og líka eiginmaður Katharinu. William Wisting verður að finna Martin, en er hann að reyna að bjarga kærum vini eða kaldrifjuðum morðingja? 

Úr bókinni

Pappakassarnir stóðu í fataskápnum. Þeir voru þrír. Wisting tók fram þann stærsta. Eitt hornið var farið að láta sig svo að hann varð að fara varlega þegar hann bar kassann fram í stofu. 

   Speldin á kassanum voru krækt saman. Wisting opnaði hann og tók efstu möppuna upp. Hún var svört með snjáðum merkimiða á kilinum: Katharina Haugen. Hann lagði möppuna til hliðar og tók upp rauða möppu sem merkt var Vitni I og tvær aðrar í sama lit, merktar Vitni II og Vitni III. Svo fann hann möppuna sem hann var að leita að, þá sem var merkt Kleivervegur

   Í kössunum voru öll skjöl viðvíkjandi Katharinu-málinu. Hann hefði strangt til tekið ekki átt að taka málsskjölin heim með sér en þau áttu betra skilið en að liggja læst inni í geymslu. Í fataskápnum minntu þau ónotalega á sig í hvert sinn sem hann skipti um skyrtu. 

   Wisting tók fram lesgleraugun og settist með möppuna í höndunum. Það var ár síðan hann fletti henni síðast. 

   Katharina hafði búið við Kleiverveg. Einbýlishúsið var ljósmyndað frá ýmsum sjónarhornum. Það var umkringt skógi og á einni myndinni glitraði Kleivertjörnin í bakgrunninum. Sjálft húsið stóð á lítilli hæð, um hundrað metra frá veginum. Það var brúnt með hvítum gluggakörmum, grænum dyrum og tómum blómakössum undir gluggunum. 

   Að blaða í myndamöppunni var eins og að ganga í gegnum draugahús. Katharina var horfin en á gólfinu stóðu skórnir hennar. Gráir hlaupaskór, brún stígvél og klossar, auk stórra sandala af manninum hennar og vinnuskónna hans. Á snögunum héngu þrír jakkar. Á kommóðunni á ganginum lá kúlupenni og innkaupalisti, óopnað umslag, dagblað og nokkrir auglýsingabæklingar. Við hliðina á skrautstyttu lá hálfvisnaður rósavöndur. Nokkrir litlir minnismiðar voru festir við spegilinn yfir kommóðunni; á einum var dagsetning og tími, öðrum nafn og heimilisfang og á þeim þriðja stóðu þrír upphafsstafir og peningaupphæð. AML 125kr.

(bls. 5-6) 

Fleira eftir sama höfund