Beint í efni

Eins og stelpa: búningar, handrit og þor til að leika hlutverkið á annan hátt

Eins og stelpa: búningar, handrit og þor til að leika hlutverkið á annan hátt
Höfundur
Emer O‘Toole
Útgefandi
Bókstafur
Staður
Egilsstaðir
Ár
2015
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um þýðinguna

Girls Will Be Girls: Dressing Up, Playing Parts and Daring to Act Differently eftir Emer O‘Toole í þýðingu Ingunnar.

Að vera kona er að stórum hluta gjörningur – hvernig við klæðumst og breytum líkama okkar, hvað við segjum, hlutverkin sem við leikum og hvernig við lögum okkur að væntingum.

Staðalmyndir kynjanna eru enn inngrónar í samfélag okkar en Emer O’Toole hefur ákveðið að endurrita þetta gamla handrit og beygja reglur kyngervisins. Með því að rannsaka hvað það þýðir að „haga sér eins og stelpa“ fer Emer með okkur í bráðfyndna ferð um líf sitt (þar með talið þegar hún söng „Látum strákana sjá krikana,“ í sjónvarpinu eftir að hafa leyft líkamshári sínu að vaxa) sem vekur lesandann til umhugsunar. Klæðskipti, rassasveiflur, kynferðisleg klúður, fjölskyldumáltíðir og vaxmeðferðir á öllum líkamshlutum er meðal þess sem krufið er nostursamlega í leit að þekkingu.

Eins og stelpa gjörbreytir því hvernig við hugsum um kynin.

Úr bókinni

Prinsessa feðraveldisins

 Ég er orðin átján ára og langt frá því að vera femínisti. Ég vinnf ulla vinnu á þorpskrá og eftir vinnu sit ég við barborðið með samstarfsfólki mínu og nokkrum fastagestum sem fá að slást í hópinn, við drekkum gin í tónik fyrir þjórféð okkar. Femínismi er ekki beinlínis aðalumræðuefnið klukkan tvö að nóttu á dreifbýliskrám á Vestur-Írlandi árið 2003, en eina nóttina ber hann samt á góma.

„Vandamálið er,“ tilkynnir kráareigandinn,

„að konur vilja ekki vera heima lengur. Þær vilja öðlast eigin starfsframa.“

Hópurinn sem samanstendur aðallega af körlum muldrar eitthvað til samþykkis, að orsök félagslegs umróts á Írlandi nútímans megi rekja til þess að konur séu ófáanlegar til að hafa heitan mat á borðum fyrir karla sína þegar þeir koma heim úr vinnunni.

Einn af gestum kvöldsins er tónlistarkona, kannski rúmlega þrítug, og hún segir:

„Vinnan mín er mér mjög mikilvæg.“

Hún fær í kjölfarið yfir sig holskeflu spurninga á borð við: „Hver á að hugsa um börnin?“ Þegar hún stingur upp á því að hægt sé að skiptast á að hugsa um börnin og sjá um húsverkin er henni sagt að það sé ekki mjög hagkvæmt og konur séu betur til þess fallnar að sjá um börn og húsverk. Hefur það ekki alltaf verið þannig? Er það ekki hið eðlilega ástand? Hún dregur í land, segir að hver einstaklingur verði að ráða fyrir sig.

„Hvað finnst þér, Emer?“ spyr kráareigandinn, yfirmaður minn.

Ég kasta til höfði þannig að rándýrt, strípulitað hárið sveiflast til og blaka stífmáluðum augnalokunum og breytist í Jesús í musterinu, heilla vitringana upp úr skónum með skarpskyggni minni og gáfum.

„Ég vil vera heima þegar ég eignast börn. Það verður æðislegt. Maður getur leikið við þau allan daginn – þarf ekki að fara út að vinna eða neitt. Konur eru svo heppnar, af því að körlum stendur þetta eiginlega ekki til boða. Ég get ekki beðið eftir að verða móðir.“

Samþykki og velvild hópsins umlykur mig eins og hlýr hafstraumur.

„Ja, hérna, það eru enn nokkrar góðar eftir,“ segir Villi á barstólnum.

(47-8)

Fleira eftir sama höfund