Beint í efni

Ekki vera sár

Ekki vera sár
Höfundur
Kristín Steinsdóttir
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
2017
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Allt sitt líf hefur Imba verið á þönum en nú er hún komin á eftirlaun, frí og frjáls. Börnin eru flogin, skyldurnar að baki og nýtt æviskeið fram undan. Loksins gefst tími til að láta draumana rætast. En eiginmaðurinn á líka sína drauma, kannski ekki þá sömu og hún . . .

Ekki vera sár er uppgjör konu á krossgötum. Með eftirsjá hugsar hún um árin sem liðu hjá og tækifærin sem hún greip ekki – en skyldi hún vera reiðubúin að standa á sínu núna? Getur hugsast að ný tækifæri bíði handan við hornið?

Úr Ekki vera sár

Síðla kvölds í fyrravetur glumdi síminn. Það var Una sem hringdi. Bjarni skólabróðir okkar hafði dottið niður. Dáið á leið heim úr vinnu. Una vildi ekki að ég heyrði látið hans í útvarpinu eða sæi það í blöðunum. Nei, hún vissi ekki til að hann hefði kennt sér neins meins. Grannur og spengilegur, var hann ekki alltaf í ræktinni? En hann var dulur, það vissum við báðar.

Nóttina á eftir svaf ég lítið, gat ekki fyrirgefið mér að hafa ekki haft meira samband við hann. Þá sjaldan við hittumst fann ég greinilega hvað við höfðum um margt að tala. Og nú helltust yfir mig minningamar. Í menntaskóla vorum við par og þótt sambandið slitnaði var þráðurinn sterkur.

Ég var lengi búin að horfa á hann út undan mér í matsalnum. Mér datt ekki í hug að hann sæi mig og vangaði annan strák síðasta vetrardag. Var samt ekkert skotin í honum og horfði niður fyrir mig þegar ég mætti honum næstu daga. Dauðsá eftir öllu saman.

Á næsta balli bauð Bjarni mér upp og við dönsuðum næstum allt kvöldið. Auðvitað vönguðum við og ég fann hvað hjartað í honum ólmaðist. Það kom mér á óvart. Ég hafði aldrei vangað fyrr en þennan vetur en varð nú einkennilega andstutt og hélt fast í hann svo ég dytti ekki. Hann fylgdi mér alveg upp að dyrum. Ég gat ekki sofnað fyrir hamingju og við Rósa hvísluðumst á í myrkrinu langt fram á nótt.

Af hverju hættum við saman? Kannski vorum við bara orðin þreytt hvort á öðru og mesta hrifningin liðin hjá. Við hættum að vanga og ákváðum að slíta sambandinu. Þetta var orðið allt of venjulegt. Samt vissum við vel hvort af öðru. Seinna fór hann til Berlínar að læra tannlækningar og kom heim með þýska konu.

Á tímabili hugsaði ég oft til hans. Mér fannst við eiga svo margt ósagt. Einu sinni var ég komin með símann í hendurnar, ætlaði að hringja og bjóða honum í kaffi. Bara til að hittast og spjalla. Ekkert syndsamlegt við það að fara á kaffihús. En ég stillti mig og lagði tólið frá mér.

Þessa nótt nagaði ég mig í handarbökin. Hversvegna í fjandanum hringdi ég ekki? Af því að við vorum bæði gift? Varla hefði ég tekið hann frá konunni þótt við hefðum drukkið saman einn eða tvo kaffibolla! Ég dró andann skrykkjótt og breiddi sængina upp yfir haus. Kveið fyrir útförinni.

Í kirkjunni sat ég hjá gömlu bekkjarfélögunum. Inn um gömlu gluggana féll annarleg birta og tilfinningaþrungin kvenrödd söng Ég veit þú kemur í kvöld til mín. Og ég fann hvernig heiftin gagntók mig. Hvað var verið að syngja þessi væmnu lög sem komu bara út á manni tárunum? Ég gat ekki einu sinni tekið undir þegar farið var með Faðir vor eða Allt eins og blómstrið eina var sungið. Grét stanslaust, grét allt sem liðið var. Hlátrar, draumar og bjartir dagar liðu hjá í einni sviphendingu. Hvað lífið hafði virst langt og allt baðað í sól. Endalokin voru í órafjarlægð, ekkert sem viðkom okkur. Bara að ég gæti faðmað hann einu sinni enn, brosleitan, fríðan og spaugsaman. En líka alvörugefinn. Hafði ég þrátt fyrir allt vitað betur? Hefði ég viljað hitta hann ekki bara einu sinni heldur miklu oftar?

Ég orkaði ekki að taka í höndina á ekkjunni og uppkomnum börnunum sem voru umkringd ættingjum og vinum. Lét mig hverfa, sleppti útfararkaffinu en fór heim, hringdi og gaf rausnarlega í minningarsjóðinn sem bent var á. Fékk mér hvítvínsglas og setti Joan Baez á fóninn: Where have all the flowers gone? Jónas var ekki heima og ég þurfti enga skýringu að gefa. Fékk mér meira hvítvín og enn meira.

í vikunni eftir að Bjarni var jarðaður gerði ég alvöru úr því að segja upp. Ætlaði ekki að detta niður á leið heim úr vinnu. Þá var skárra að hafa notið lífsins í nokkur ár. Og þótt eftirlaunin væru ekki há yrðu einhver ráð. Íbúðin var skuldlaus, bíllinn líka og ég var vönust því að fara vel með.

(16-9)

 

Fleira eftir sama höfund

Á eigin vegum

Lesa meira

Draugar vilja ekki dósagos

Lesa meira

Ängeln i trapphuset

Lesa meira

Angelas Vakaru rajone

Lesa meira

Spurgos ir karis

Lesa meira

Bjarna-Dísa

Lesa meira

Eitt tvö þrjú...

Lesa meira