Beint í efni

Ellefu mínútur

Ellefu mínútur
Höfundur
Paulo Coelho
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2004
Flokkur
Íslenskar þýðingar

 

Um bókina

Þegar Paulo Coelho sneri aftur á hótel sitt eftir að hafa sótt ráðstefnu á Ítalíu árið 1999 beið hans handrit. Þetta var ævisaga brasilísku vændiskonunnar Soniu. Frásögnin heillaði Coelho og eftir miklar rannsóknir og heimildaleit varð Ellefu mínútur til og hefur hún nú verið þýdd á meira en 39 tungumál.

Ellefu mínútur segir frá Maríu, ungri brasilískri stúlku sem er tilfinningalega niðurbrotin eftir reynslu sína af fyrstu ástinni. Hún er á viðkvæmum aldri og sannfærist um að hún muni aldrei finna sanna ást og að henni fylgi ekkert nema þjáning, vonbrigði og kvöl. Hún fer til Genfar þar sem hana dreymir um að verða fræg og rík en verður þess í stað vændiskona.

Í Genf fjarlægist María ástina æ meira um leið og hún verður heltekin af kynlífi. Þegar hún kynnist myndarlegum, ungum listamanni fer verulega að reyna á hugmyndir hennar um ástina. María þarf að velja á milli kynlífs, kynlífsins vegna, og að taka þá áhættu að finna ljósið innra með sjálfri sér og að njóta kynlífs ástarinnar.

Úr Ellefu mínútum

Þetta kvöld fór hún út til að hitta bestu og einu vinkonu sína, þá á bókasafninu. Hún bað um bók um hagfræði og rekstur á sveitabýlum. Konan sagði með trúnað í rómnum:

- Veistu að fyrir nokkrum mánuðum þegar þú komst til að biðja um bækur um kynferðismál fór ég að óttast um framtíð þína. Það eru svo margar fallegar ungar stúlkur sem láta tælast af vonum um auðfengið fé og gleyma að einn góðan veðurdag eru þær orðnar gamlar og hafa ekki lengur tækifæri til að finna sinn rétta lífsförunaut.

- Ertu að tala um vændi?

- Þetta er vont og alltof sterkt orð.

- Eins og ég sagði vinn ég hjá fyrirtæki sem sér bæði um inn- og útflutning á kjöti. Fengi ég hins vegar tækifæri til að selja mig, yrðu afleiðingarnar þá svo skelfilegar, hætti ég á réttum tíma? Æskunni fylgir, ef á allt er litið, það að fara villur vega.

- Allir eiturlyfjasjúklingar segja þetta, að nóg sé að vita hvenær skuli hætta. En enginn hættir.

- Þú hlýtur að hafa verið afar fríð kona í landi þar sem virðing er borin fyrir þegnunum. Nægði þetta til að gera þig hamingjusama?

- Ég er stolt yfir hvernig ég yfirsteig minn vanda.

Átti hún að halda áfram. Gott og vel, þessi stúlka þurfti að læra ýmislegt um lífið.

- Ég átti ánægjulega æsku og lærði í einum besta skólanum í Bern og fór að vinna í Genf þar sem ég hitti og giftist manninum sem ég elskaði. Ég gerði allt fyrir hann, hann gerði líka allt fyrir mig, og tíminn leið og það kom að starfslokunum. Þegar hann varð frjáls til að nota tímann við það sem hann vildi sjálfur urðu augun í honum bara  dapurleg, vegna þess að kannski hafði hann aldrei á ævinni brotið heilann um sjálfan sig. Við rifumst aldrei í alvöru, urðum aldrei fyrir miklum skakkaföllum, hann sveik mig aldrei eða misvirti innan um fólk. Við lifðum eðlilegu lífi, svo eðlilegu að þegar hann hætti störfum fannst honum hann verða einskisverður. Lífið missti tilgang og hann dó ári síðar úr krabba.

Það sem hún sagði var satt, en sannleikurinn hefði getað haft neikvæð áhrif á stúlkuna fyrir framan hana.

-Hvað sem því líður er ævi laus við stóratburði best, hélt konan áfram. – Ef lífið hefði verið öðruvísi hefði maðurinn minn kannski bara dáið yngri.

(94-95)

Fleira eftir sama höfund

Alkemistinn

Lesa meira

Veronika ákveður að deyja

Lesa meira