Beint í efni

Elsku sólir

Elsku sólir
Höfundur
Ása Marin
Útgefandi
JPV útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Þegar Sunna og Ársól fá bréf frá móður sinni sem segist vera við dauðans dyr á Spáni bregðast þær ólíkt við; Ársól vill drífa sig út en Sunna fyllist tortryggni. Ekkert í sambandi mæðgnanna er einfalt og fortíðin lituð vonbrigðum og sársauka. Þó verður úr að systurnar og Barbara, gömul vinkona móðurinnar, drífa sig til Andalúsíu. Það sem þar tekur við kemur öllum jafnmikið á óvart og smám saman átta þær sig á að nýir vinir skipta mun meira máli en gamlar syndir.

Úr bókinni

Útsýni yfir höll, sem Ársól var fljót að finna út að væri Alhambra-höllin, var stórbrotið. Klettótt hæðin sveipuð grænni gróðurslæðu með rústrauða höllina efst líkt og kórónu. Í bakgrunni lá svo Sierra Nevada-fjallgarðurinn þar sem snjóaði það mikið á veturna að heimamenn gátu skellt sér á skíði.
   "Þetta er eins og póstkort," stundi Barbara upp og í fyrsta sinn í ferðinni seildist hún eftir símanum sínum. Barbara og Ársól tóku myndir í gríð og erg. Af höllinni og sjálfum sér með höllina í bakgrunni, og að lokum fengu þær hvor aðra til að taka myndir af sér til að ná víðari römmum. Á meðan leit Sunna í kringum sig. Klukkan var tæplega hálf níu og það voru ekki margir á ferli. Hún gekk framhjá litlu kaffihúsi sem var á torginu og leit í kringum sig en sá ekki móður sína. Hún rölti um og sá hvar maður með sítt hár og svarta gítartösku þrammaði yfir torgið.
   Hlustið eftir ljúfum tónum klassíska gítarsins hafði staðið í bréfinu. Hún elti gítarleikarann með augunum og sá hvernig hann stillti sér upp við enda torgsins og opnaði töskuna. Upp úr svörtum bakpoka dró hann kaffibrúsa. Í rólegheitunum hellti hann kaffi í platskönnu og fékk sér sopa, horfði yfir Alhambra-höllina og dró andann djúpt, líkt og til að undirstrika að þetta væri sannarlega lífið.
   Svo settist hann niður, tók upp snjáðan gítar og byrjaði að still strengina. Einn af öðrum fengu þeir þann hljóm sem maðurinn varð sáttur við, síðan byrjaði hann að spila. Fingurnir léku um strengina líkt og hann hefði töluvert fleiri fingur á höndunum en Sunna. Hún leit á Barböru og Ársól sem fyrst núna höfðu gefið gítarleikaranum gaum. Sunna gekk til þeirra og saman nálguðust þær manninn, hlustuðu á eitt lag og klöppuðu fyrir honum. Hann roðnaði.
   Barbara seildist ofan í vasa, tók upp nokkrar evrur og setti í kassann. Hann spilaði annað lag. Þær nutu þess að hlusta á hann um leið og þær nutu útsýnisins.
   "Fyrirgefið," kallaði gítarleikarinn til þeirra þegar lagið var búið og þær sneru sér að honum. "Er einhver ykkar Sunna?"
   "Já, ég."
   "Ég er með svolítið handa þér," sagði gítarleikarinn þá og kafaði ofan í bakpokann sinn. Hann dró upp lítinn pakka og rétti Sunnu.

(s. 54-56)

 

 

Fleira eftir sama höfund

Bláar dyr

Lesa meira

Búmerang

Lesa meira

Að jörðu

Lesa meira

Vegur vindsins

Lesa meira

Og aftur deyr hún

Lesa meira

Yfir hálfan hnöttinn

Lesa meira