Beint í efni

Endurkoman

Endurkoman
Höfundur
Ólafur Jóhann Ólafsson
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2015
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina:

Símtal frá Bretlandi kemur róti á huga hálfíslensks læknis í New York. Hefur Magnús Colin lifað í blekkingu frá barnæsku? Hefur hann aldrei séð foreldra sína í réttu ljósi?

Um leið og Magnús þarf að horfast í augu við fortíð sína fær hann til rannsóknar óþekkta konu sem finnst í dái eftir slys á afskekktum vegi. Þegar hann fer að gruna að hún sé með meðvitund en læst inni í eigin líkama vakna áleitnar spurningar um hver hún er, um sjálfan hann – og ekki síst um Malenu, konuna sem hann elskar. Endurkoman er seiðmögnuð skáldsaga um ástina og leitina að hamingjunni, einsemd og söknuð, brotthvarf ­– og endurkomu.

Úr bókinni:

Eins og við mátti búast frétti Simone af „uppátæki“ mínu, eins og hún kallaði það. Hún sagði mér ekki hvernig – „það skiptir ekki máli,“ svarað hún þegar ég spurði hana – en auðvitað hefur Anthony ekki getað setið á sér að nefna að ég skyldi hafa beðið hann en ekki hana að aðstoða sig. Hann hefur sjáflsagt ekki orðað það þannig en sagt nóg til að hún móðgaðist. Hún horfði þegjandi á mig en með kennslukonusvip sem bar þess merki að hún væri bæði vonsvikin og áhyggjufull og spurði mig, eins og hún hafði gert oftar en einu sinni undanfarna mánuði, hvort allt væri í lagi. Ég játaði því umsvifalaust, þótt „allt“ sé víðtækt orð, og vonaði að hún gengi ekki á mig og bæði mig að útskýra hvað hefði vakað fyrir mér því skýringin hljómar auðvitað kjánalega og hefði ekki fengið hana til að breyta um svip. Þess í stað sagði ég áður en ég vissi af:

Ég heyrði í sjónum.

Ég sat í stólnum á skrifstofunni minni og hún stóð við dyrnar sem voru opnar fram á gang en hallaði nú aftur hurðinni.

Magnús, sagði hún, um hvað ertu að tala?

Ég gat valra horft framan í hana en komst ekki hjá því að svara henni. Ég reyndi um leið að snúa vörn í sókn því ég gerði mér fulla grein fyrir stöðu minni.

Þegar ég lá þarna lamaður … þá heyrði ég í sjónum. Það kom mér á óvart. Þú ættir kannski að reyna þetta.

Að láta gefa mér succs og setja mig í öndunarvél?

Vercuronium brómíð, leiðrétti ég að gamni mínu. Það er ekkert að því að reyna að setja sig í spor sjúklinga sinna.

Það hjálpar þeim ekki, Magnús. Og þér ekki heldur. Þú verður að reyna að …

Hún þagnaði. Ég sá að augu hennar höfðu staðnæmst við mynd af okkur Malenu sem ég hafði límt utan á bókahillu yfir skrifborðinu. Myndin var tekin á Ponte Vecchio í Flórens, hálfu ári áður en hún lést. Við vorum á leið í Uffizi-safnið, höfðum staðnæmst til að horfa niður ána og hún beðið mann sem átti leið hjá að taka mynd af okkur. Hún heldur utan um mig með báðum höndum og er kankvís á svip og brosið bjartara en sólin sem skín á okkur og hálfblindar mig en ekki hana því hún er að horfa á mig.

Ég gaut augum á myndina, svo á Simone. Ég vildi binda enda á samtalið sem fyrst.

(36-7)

Fleira eftir sama höfund

Málverkið

Lesa meira
játning

Játning

Tveir íslenskir námsmenn, Elísabet og Benedikt, kynnast í Leipzig skömmu fyrir hrun múrsins.
Lesa meira

Markaðstorg guðanna

Lesa meira

Aldingarðurinn

Lesa meira

Retour en Islande

Lesa meira

Sakleysingjarnir

Lesa meira

Minnenas palats

Lesa meira

Una passeggiata nella notte

Lesa meira

Fjögur hjörtu

Lesa meira