Beint í efni

Flóttinn

Flóttinn
Höfundur
Sindri Freysson
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2004
Flokkur
Skáldsögur

Af bókarkápu:

Þegar Bretar hernámu Ísland vorið 1940 lagði ungur Þjóðverji, Thomas Lang, á flótta. Hver var þessi maður og með hvaða undraverða hætti tókst honum að fara huldu höfði í rúmt ár, á flótta undan hæfustu þjónum heimsveldisins? Líf hans var í stöðugum háska - og oftast virtist skelfingin ein blasa við.

Sögusvið Flóttans eru mestu umbrotatímar í sögu íslensku þjóðarinnar. Bókin er hlaðin litríkum persónum og örlagaríkum atburðum. Höfundur sýnir ekki aðeins nýjar hliðar á sjálfum sér heldur einnig á sögu Íslands, þegar stríðið og nútíminn komu í óvænta heimsókn.

Úr Flóttanum:

Hann hagræddi ímynduðum riffli við öxlina og miðaði beint á hjarta drengsins. Þeir voru á rangli um heiðina, tveir vinir að drepa hvor annan.
  ,,Búmm! sagði hann. Skotmarkið greip um brjóstið á sér og lét sig detta með hryglu á vör. Morðinginn sendi aðra kúlu í grafkyrran líkama vinar síns.
  ,,Beint í mark, nasistadrjóli, sagði hann ánægður. Vinur hans reis upp og hagræddi húfunni. Hann var ekki jafn glaður.
  ,,Af hverju þarf ég alltaf að vera nasisti? kvartaði hann. Eldri guttin setti leikreglurnar og lét sem hann heyrði ekki möglið í hinum.
  ,,Þú ert með augu sem enginn treystir. Þannig augu hafa njósnarar. Stöðugt að hnýsast ofan í lokaðar skúffur og gægjast inn um skráargöt. Ég er ekki með þannig augu, fullyrti hann.
  Drengurinn með njósnaraaugun skimaði í kringum sig í leit að polli til að spegla á sér andlitið. Gróðurinn var þurr eftir nokkra góða vordaga og enginn pollur sjáanlegur. Hann dæsti, leiður á að vera óvinurinn, drepinn á fimm mismunandi vegu á dag.
  ,,Nei, ég er ekkert með njósnaraaugu. Pabbi segir að ég sé með augun hennar mömmu, sagði hann í úrslitatilraun til að bæta hlutskipti sitt. ,,Fyrir stríð þurfti ég aldrei að vera njósnari.
  Morðingi hans daufheyrðist við. ,,Höldum áfram, skipaði hann. Þeir röltu áfram upp móann með sólina í hnakkann. Annar hálfu höfði hærri og með rauðleitt hárstrý sem virtist útilokað að hemja með greiðu. Hinn snoðaður undir húfu sem var með öllu óþörf á þessum góðviðrisdegi. En á vesturhimninum blöktu regnský.
(9)

Fleira eftir sama höfund

Fljótið sofandi konur

Lesa meira

Ljóð í 25 poètes islandais d´aujourd´hui

Lesa meira

Smásögur og ljóð í Wortlaut Island

Lesa meira

Dóttir mæðra minna

Lesa meira

Ljóðveldið Ísland

Lesa meira

Skuggaveiði

Lesa meira

Góðir farþegar

Lesa meira

(M)orð og myndir

Lesa meira

Augun í bænum

Lesa meira